Haukar Íslandsmeistarar

Auður Hermannsdóttir og Harpa Melsted hlaupa sigurhring með bikarinn. Haukar …
Auður Hermannsdóttir og Harpa Melsted hlaupa sigurhring með bikarinn. Haukar sigruðu ÍBV, 28:22 á Ásvöllum, og tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn. Mbl.is/Þorkell

Haukar eru Íslandsmeistarar í handknattleik kvenna árið 2001. Haukastúlkur sigruðu ÍBV, 28:22 á Ásvöllum, og var þetta þriðji sigur Hauka á ÍBV í úrslitaeinvígi liðanna. Leikurinn í dag var jafn framan af en um miðbik síðari hálfleiks skildu leiðir milli liðanna. Haukar byrjuðu að spila eins og sönnum meisturum sæmir og náðu mest sjö marka forystu. Eftir þetta var aldrei spurning um hvoru megin sigurinn myndi lenda, og þegar leiktíminn rann út stigu Haukastúlkur sigurdans.

Haukar eiga titilinn skilið því þær sýndu það í vetur og í úrslitakeppninni að þær voru með breiðasta og besta hópinn. Þær sigruðu leiki sína í úrslitakeppninni sannfærandi og sýndu að þær eru verðugir Íslandsmeistarar. Auður Hermannsdóttir var mjög sterk í liði Hauka, hún skoraði 8 mörk. Hanna G. Stefánsdóttir var einnig atkvæðamikil hjá Haukum með 7 mörk. Hjá ÍBV skoraði Anita Andreassen 5 mörk og Vigdís Sigurðardóttir varði 9 skot í marki ÍBV.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert