Fyrsta íslenska konan berst sem atvinnumaður

Valgerður Guðsteinsdóttir.
Valgerður Guðsteinsdóttir. Ljósmynd/Snorri

Á morgun fer fram stór hnefaleikakeppni í Brandbergens Centrum í Stokkhólmi sem
ber nafnið Rising Stars. Margar áhugaverðar viðureignir fara þar fram og þar á meðal tvær viðureignir þar sem íslenskir hnefaleikarar koma við sögu.

Annarsvegar er það ósigraði þungavigtargarpurinn Kolbeinn Kristinsson (7-0) sem mun berjast sinn áttunda atvinnubardaga og hinsvegar mun hnefaleikakonan Valgerður Guðsteinsdóttir (0-0) berjast sinn fyrsta atvinnubardaga. Valgerður er þar með að brjóta blað í íslenskri íþróttasögu þar sem hún verður þar með fyrsta íslenska konan sem berst sem atvinnumaður í hnefaleikum.

Kolbeinn Kristinsson.
Kolbeinn Kristinsson. Ljósmynd/Snorri

Upprunalega stóð ekki til að hinn tuttugu og átta ára gamli Kolbeinn myndi berjast á þessu kvöldi og kom það bara upp fyrr í þessari viku að honum var boðinn bardaginn þar sem fyrri andstæðingurinn þurfti að draga sig úr leik sökum meiðsla. Kolbeinn hefur undangengna daga dvalið á Álandseyjum í æfingabúðum og er því algjörlega tilbúinn í sinn bardaga þó svo að hann hafi komið upp með mjög skömmum fyrirvara.

Andstæðingur hans er 31 árs gamall ósigraður Georgíumaður sem heitir Archil Gigolashvili (2-0). Lítið er vitað um hann annað en það að hann hefur unnið báða sína atvinnubardaga á stigum. Kolbeinn er talsvert hærra skrifaður innan hnefaleikaheimsins en hann og ætti samkvæmt tölfræðinni að geta borið sigur úr býtum.

Valgerður, sem er 31 árs gömul, er liðsfélagi Kolbeins í hnefaleikafélaginu Æsi og hefur æft og keppt í hnefaleikum frá árinu 2011. Hún hefur stefnt að því að verða atvinnumaður í íþróttinni um langt skeið og greip því tækifærið tveim höndum þegar það bauðst að berjast á þessu bardagakvöldi. Hún mætir hinni sænsku Angelique Hernandez (1-1) sem á tvo bardaga að baki, einn sigur og eitt tap. Valgerður segist hafa verið að undirbúa sig fyrir þennan bardaga ansi lengi og því sé það fyrst og fremst tilhlökkun sem hún upplifir.

„Ég er búin að boxa ótal áhugamanna- og æfingabardaga. Við búum á Íslandi og hér eru atvinnuhnefaleikar ekki leyfðir, en hinsvegar tökum við bara þeim mun fastar á því þegar við æfum og ég er ekki í nokkrum vafa um að ég sé rétt undirbúin fyrir bardagann á morgun. Ég er afar stolt af því að vera fyrsta íslenska konan sem stígur þetta skref og ég veit vel að ég er ekki sú síðasta. Það er mikill uppgangur í hnefaleikum á Íslandi,“ segir Valgerður.

mbl.is