Tvöfalt hjá Örnu og Ara

Arna Stefanía Guðmundsdóttir er komin með tvo Íslandsmeistaratitla um helgina.
Arna Stefanía Guðmundsdóttir er komin með tvo Íslandsmeistaratitla um helgina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arna Stefanía Guðmundsdóttir og Ari Bragi Kárason, bæði úr FH, hafa landað tveimur Íslandsmeistaratitlum hvort á Meistaramótinu í frjálsum íþróttum í Laugardalshöll.

Ari Bragi hljóp rétt í þessu til sigurs í 200 metra hlaupi á 22,03 sekúndum. Guðmundur Ágúst Thoroddsen úr Aftureldingu var næstur á eftir honum á 22,19 sekúndum og Kormákur Ari Hafliðason úr FH þriðji á 22,37. Áður hafði Ari Bragi orðið Íslandsmeistari í 60 metra hlaupi í gær.

Arna Stefanía, sem vann 400 metra hlaup í gær, fylgdi því eftir með sigri í 200 metra hlaupi í dag. Hún hljóp á 24,68 sekúndum eða 29/100 úr sekúndu hraðar en Þórdís Eva Steinsdóttir úr FH sem veitt hefur Örnu góða keppni um helgina. Helga Margrét Haraldsdóttir úr ÍR varð svo þriðja á 25,43 sekúndum.

Fyrr í dag varð Hilda Steinunn Egilsdóttir úr FH Íslandsmeistari í stangarstökki með 3,60 metra stökki. Stella Dögg Eiríksdóttir Blöndal úr ÍR og Rakel Ósk Dýrfjörð Björnsdóttir úr KFA urðu jafnar í 2.-3. sæti með 3,12 metra stökki. ÍR-ingurinn Hulda Þorsteinsdóttir, besta stangarstökkskona Íslands síðustu ár, tók ekki þátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert