Hvalreki fyrir áhugamenn um skvass

F.v. Conor D'Gruz, þjálfari Gaultier, Greg Gaultier og Kim Magnús …
F.v. Conor D'Gruz, þjálfari Gaultier, Greg Gaultier og Kim Magnús Nielsen, margfaldur Íslandsmeistari skeggræða skvass. Ljósmynd/ Hilmar

Fremsti skvassspilari heims til margra ára, Frakkinn Greg Gaultier, er staddur hér á landi. Hann mun á morgun og á laugardaginn leika sýningaleiki við landa sinn Lucas Serme í skvassölum Skvassfélags Reykjavíkur við Stórhöfða 17. Einnig munu þeir leiðbeina yngri iðkendum meðan dvöl þeirra hér landi stendur.

Fyrri viðureign Frakkanna fer fram annað kvöld klukkan 19 og sú síðari kl. 14.30 á laugardag.

Gaultier er heimsmeistari í greininni og var þar til í síðasta mánuði í efsta sæti heimslista skvassmanna. Hann situr nú í öðru sæti en stefnir ótrauður á að endurheimta efsta sætið á styrkleikalistanum sem uppfærður er reglulega eins og í mörgum öðrum íþróttagreinum. Litið á listann síðustu tíu ár má sjá að Frakkinn hefur verið í hópi fimm bestu allan tímann. Koma Gaultier og Serme er sannkallaður hvalreki fyrir skvassáhugafólk hér á landi en íþróttinni vex nú fiskur um hrygg eftir að áhuginn hafi gengið í bylgjum.

Alls hefur Gaultier fimm sinnum leikið til úrslita um gullverðlaun á heimsmeistaramóti.

Gaultier segir skvass hafa marga kosti sem íþrótt, ekki sé aðeins hreyfingin góð heldur er mögulegt að leika hana einn. „Þótt ég sé atvinnumaður í íþróttinni þá leik ég oft einn. Það er ein besta leiðin til þess að komast að styrkleikum sínum og veikleikum í íþróttinni,“ sagði Gaultier þegar mbl.is hitti hann að máli í dag.

Gaultier segir að tilgangurinn með komu sinni hingað til lands sé fyrst og fremst að efla áhugann fyrir skvass hér á landi. „Ég geri mikið af því á milli mót að fara á milli landa og sýna skvass til þess á breiða út fagnaðarerindið sem skvassið er. Ég vil kynna íþróttina fyrir sem flestum. Hér á landi gefst fólki væntanlega ekki oft kostur á að sjá atvinnumenn leika skvass og kynnast æfingum þeirra og hugsunarhætti. Ég hef ánægju af því að miðla af reynslu minni af skvassi. Vonandi get ég ýtt undir áhuga á skvassi hér á landi,“ sagði Gaultier ennfremur.

„Skvass er einstaklega góð alhliða íþrótt sem styrkir bæði líkama og sál og hentar jafnt yngri sem eldri.“

Gaultier, sem er 35 ára gamall, hefur lagt stund á æfingar og síðar keppni í skvassi frá fjögurra ára aldri. Hann hefur verið í allra fremstu röð í heiminum í sinni í íþrótta síðasta hálfan annan áratuginn og atvinnumaður frá 15 ára aldrei.  Gaultier hefur unnið öll sterkustu mót sem haldin eru, sum oftar en einu sinni. Auk heimsmeistaratignar má þess geta að Frakkinn hefur m.a. þrisvar sinnum staðið uppi sem sigurvegari á Opna breska meistaramótinu.

Skvass er mikill sókn í Bandaríkjunum, ekki síst í framhaldsskólum. Eins er vaxtabroddur í íþróttinni í austur Evrópu, s.s. eins og Póllandi en einnig utan Evrópu eins og í Egyptalandi en Egyptar eiga nokkra af tíu fremstu skvassleikurum heims í karlaflokki um þessar mundir.

Gaultier varð snemma bráðger í íþróttinni sem hann hóf að æfa barn að aldri m.a. vegna þess að foreldrar hans ráku skvassæfingamiðstöð. Hæfileikarnir komu snemma í ljós og hann lék oftast nær við eldri keppendur á barns- og unglingsaldri.  Síðan hefur skvass átt hug hans alla. Hann hefur komið til allra heimshorn og keppir sex  til sjö mánuði á ári, viðvegar um heim á hinum ýmsu mótaröðum. Gaultier hefur bækistöðvar í Prag í Tékklandi þar sem hann hefur búið í nærri sjö ár.  Hann heldur þó enn góðum tengslum við föðurland sitt og kemur þangað reglulega til keppni og æfinga, ekki síst í gömlu íþróttamiðstöðinni þar sem hann ólst upp en henni er enn haldið úti til æfinga fyrir úrvals skvassleikara af yngri kynslóðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert