Æfði eins og ég gat á meðgöngunni

Hafdís Sigurðardóttir í langstökkinu í gær.
Hafdís Sigurðardóttir í langstökkinu í gær. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þetta er búið að vera skemmtilegt. Það er alltaf gaman að koma á Meistaramótið. Við hefðum getað verið heppnari með veður en maður vinnur bara með þetta,“ sagði Hafdís Sigurðardóttir, tvöfaldur Íslandsmeistari, í samtali við mbl.is í dag. 

Hún var þá nýbúin að vinna þrístökkið á 92. Meistaramótinu í frjálsum íþróttum á Sauðárkróki með stökk upp á 12,07 metra. Hafdís vann langstökkið í gær og er því tvöfaldur meistari. 

„Ég er ánægð með árangurinn, langstökkið var fínt og ég ákvað að taka þrístökkið til að rifja það aðeins upp, það eru nokkur ár síðan ég stökk þrístökk síðast.“

Með Hafdísi í för á mótinu var dóttir hennar, sem verður eins árs á miðvikudaginn kemur. Hún hefur hægt og rólega komist meira og meira af stað eftir meðgönguna. 

„Ég æfði eins og ég gat á meðgöngunni og var með mjög góða heilsu sem hjálpaði mikið. Eftir að ég átti hana fór ég rólega af stað og var ekki að flýta mér, ég tók léttar æfingar og með tímanum fór ég að auka álagið. Ég keppti þegar hún var sjö mánaða og var þá Íslandsmeistari innanhúss og ákvað svo að taka sumarið þokkalega ákveðið.“

Það verður nóg að gera hjá Hafdísi á komandi vikum og mánuðum. 

„Ég tek kannski nokkur mót í viðbót og svo verður neglt á tímabilið innanhúss sýnist mér á öllu,“ sagði Hafdís Sigurðardóttir að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert