Furðulegar aðferðir þjálfarans virka

Alexander Arnar Þórisson (7) fagnar með KA-mönnum eftir bikarúrslitaleikinn í …
Alexander Arnar Þórisson (7) fagnar með KA-mönnum eftir bikarúrslitaleikinn í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum allir mjög góðir félagar og það er svo ótrúlega gaman þegar við náum að spila vel saman,“ sagði Alexander Arnar Þórisson, leikmaður KA, við mbl.is eftir að liðið vann sinn annan bikarmeistaratitil í röð í blaki. KA vann Álftanes í úrslitaleik, 3:0.

„Við vorum pínu erfiðir í gang, vorum ekki alveg að finna okkur. En eins og í síðustu hrinunni þá vorum við allir komnir í gang,“ sagði Alexander, en hvort er skemmtilegra að verja titilinn núna eða vinna hann aftur eftir bið eins og í fyrra?

„Það er erfitt að segja. Það er bara alltaf ótrúlega gaman að vinna, alveg sama hvernig það er,“ sagði Alexander. KA hefur þegar hampað deildarmeistaratitlinum og getur sem ríkjandi Íslandsmeistari náð þrennunni annað árið í röð með því að ná þeim stóra aftur.

„Það er alveg klárlega markmiðið og bara það eina sem er í boði.“

En hvað er á bak við þennan svakalega uppgang sem er hjá KA í blakinu núna?

„Við höfum fengið sterka útlendinga, nokkrir sem komu bara til þess að búa á Akureyri. Svo er uppspilarinn, Filip, alveg frábær. Fólk þekkir blak kannski ekki nógu vel og sér ekki að hann er á allt öðru leveli en aðrir. Hann er alveg einstaklega góður,“ sagði Alexander.

Filip sem hann talar um er Filip Pawel Szewczyk, sem jafnframt er þjálfari KA-manna. En er hann jafn góður þjálfari og hann er að stjórna spilinu inni á vellinum?

„Já já. Hann hefur sínar furðulegu aðferðir – en þær virka!“

Með bikar­meist­ara­titl­in­um tryggðu KA-menn tvö­fald­an fögnuð fé­lags­ins, en kvennalið KA varð fyrr í dag bikar­meist­ari í fyrsta sinn eft­ir sig­ur á HK. Það er því von á skemmtilegri rútuferð norður.

„Það er algjörlega frábært og hamingjuóskir til þeirra. Algjör snilld. Vonandi verður einhver smá veisla núna, þó að flestir séu reyndar örugglega að fara að vinna á morgun,“ sagði Alexander Arnar Þórisson að lokum við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert