Hann er geggjaður leikmaður

Frá viðureign KA og HK í gærkvöld.
Frá viðureign KA og HK í gærkvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Lúðvík Már Matthíasson er 23 ára fyrirliði og uppspilari HK í blaki. Hann er sjálfur sexfaldur Íslandsmeistari með HK en annað árið í röð þurfti Lúðvík að sjá á eftir titlinum til KA.

KA og HK börðust grimmilega um titilinn í ár og vann KA oddaleik einvígisins í kvöld. Leikurinn fór 3:2 en þrír síðustu leikir úrslitakeppninnar fóru 3:2.

Hvað segir þú Lúðvík. Er þetta ekki leiðinleg tilfinning?

„Þetta verður seint skemmtilegt. Þetta einvígi var allt öðruvísi en í fyrra. Þá voru KA-menn bara sterkari og unnu alla þrjá leikina. Þetta var allt annað og bara gott hjá okkur að hafa náð þessu í fimm leiki. Þessi lokaleikur var bara geggjaður, þrátt fyrir allt. Við vorum fyrir fram taldir slakara liðið en sýndum það að við erum jafngóðir og KA. Við hefðum allt eins getað unnið þetta einvígi.“

Þið voruð með góðar stöður í þessu einvígi. Voruð 2:1 yfir í leikjum og á heimavelli í fjórða leiknum. Þar munaði engu að þið næðuð að klára einvígið?

„Það er hárrétt. Við vorum að vinna þann leik 2:1 og yfir í fjórðu hrinunni. Þar var stóri sénsinn okkar. Að koma hingað norður var miklu erfiðara þótt við höfum verið grátlega nálægt því að taka þennan leik. Við hefðum þurft að grípa sénsinn í Fagralundi og klára þetta þar.“

Svona þegar þú hugsar um þennan leik. Hvað skildi á milli? Það má segja að liðin hafi verið hnífjöfn.

„Móttakan hjá okkur var fín í dag en hefur verið smá vandamál hjá okkur. Uppgjafirnar gengu líka nokkuð vel og miðjusóknin ágætlega. Svona fljótt á litið þá er það kannski hávörnin hjá KA sem skildi á milli. Þeir eru með mjög sterka hávörn og það er erfitt að skila boltum í gegnum hana. Það komu líka of langir kaflar þar sem við bara festumst. Við hefðum getað gert eitthvað betur þá.“

Lúðvík hrósaði andstæðingum sínum í KA mikið og er greinilegt að hann hefur mikið dálæti á hinum aldna uppspilara liðsins Filip Szewczyk. „Hann er bara snillingur, algjör blaksnillingur maðurinn. Hann þjálfar og spilar, stjórnar öllu inni á vellinum. Hann getur verið erfiður og það er bæði erfitt að spila á móti honum og stundum leiðinlegt. Hann er geggjaður leikmaður,“ sagði Lúðvík í lokin, en hann var sjálfur frábær í leiknum og einvíginu og hefur allt til að bera sem prýða má fyrirmyndaríþróttamann.

mbl.is