Ólympíumeistarinn datt í úrslitum

Grant Holloway fagnaði vel og innilega þegar hann kom fyrstur …
Grant Holloway fagnaði vel og innilega þegar hann kom fyrstur í mark í 110 metra grindahlaupi karla. AFP

Grant Holloway frá Bandaríkjunum kom fyrstur í mark í 110 metra grindahlaupi karla í kvöld á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum sem fram fer í Doha í Katar. Holloway, sem er 21 árs gamall, hljóp á tímanum 13,10 sekúndum en þetta voru hans fyrstu gullverðlaun á heimsmeistaramóti. Serget Shubenkov frá Rússlandi varð annar á tímanum 13,15 sekúndum og Frakkinn Pascal Martinot-Lagarde kom þriðji í mark.

Fyrir hlaupið var Omar McLeod frá Jamaíka talinn líklegastur en hann átti titil að verja í greininni. McLeod, sem fékk gull í greininni á Ólympíuleikunum í Ríó 2016, lenti í miklum vandræðum á brautinni þegar hann átti tvær grindur eftir. Hann hrasaði svo við síðustu grindina og datt á hausinn og Holloway, sem hafði leitt allt hlaupið, fagnaði sigri.

Dina Asher-Smith frá Bretlandi fagnaði sigri í 200 metra hlaupi kvenna en hún kom fyrst í mark á tímanum 21,88 sekúndum. Smith er 23 ára gömul en tími hennar, 21,88 sekúndur, er nýtt landsmet í Bretlandi. Þetta voru önnur verðlaun Smith á heimsmeistaramótinu í Katar en hún fékk silfur í 100 metra hlaupi á sunnudaginn. Þá er Asher-Smith fyrsta breska konan til þess að vinna til gullverðlauna á stórmóti í spretthlaupi.

Þá fór Pólverjinn Pawel Fajdek með sigur af hólmi í sleggjukasti karla en hann kastaði lengst 80,50 metra. Pólverjinn tók forystuna strax í fyrsta kasti sínu sem var 79,34 metrar og lét hana aldrei af hendi. Quentin Bigot frá Frakklandi hafnaði í öðru sæti með kast upp á 78,19 metra og Bence Halász frá Ungverjalandi varð þriðji með kast upp á 78,18 metra.

Dina Asher-Smith vann öruggan sigur í 200 metra hlaupi kvenna.
Dina Asher-Smith vann öruggan sigur í 200 metra hlaupi kvenna. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina