Sá efsti á heimslistanum í bílslysi þar sem ökumaðurinn lést

Frá vettvangi í Kuala Lumpur í morgun.
Frá vettvangi í Kuala Lumpur í morgun. AFP

Kento Momota frá Japan, efsti maður heimslista karla í badminton, slasaðist í bílslysi í Kuala Lumpur, höfuðborg Malasíu, í morgun þar sem ökumaður bifreiðarinnar lést. 

Momota var í leigubíl á leið á alþjóðlega flugvöllinn í Kuala Lumpur en hann varð í gær sigurvegari á Malaysia Masters, fyrsta móti keppnistímabilsins 2020. Bifreið þeirra ók á stóran flutningabíl. Momota fékk nokkra áverka á andliti og nefbrotnaði, samkvæmt frétt Reuters.

Þrír aðrir voru í bifreiðinni og urðu allir fyrir áverkum en það voru sjúkraþjálfari Momota, aðstoðarþjálfarinn hans og stjórnarmaður í Alþjóðabadmintonsambandinu. Heilbrigðisráðherra Malasíu, Dzulkefly Ahmad, sagði við fjölmiðla að fjórmenningarnir væru allir í stöðugu ástandi og yrðu útskrifaðir af sjúkrahúsinu um leið og læknar teldu það óhætt.

Kento Momota með sigurlaunin eftir sigurinn á mótinu í Malasíu …
Kento Momota með sigurlaunin eftir sigurinn á mótinu í Malasíu í gær. AFP
mbl.is