Mun heimsmet Jarmilu standa í 100 ár?

Jarmila Kratochvílóvá á ferðinni.
Jarmila Kratochvílóvá á ferðinni. Reuters

Líftími meta í íþróttunum er mjög mismunandi. Vilhjálmur Einarsson átti til að mynda ólympíumet í aðeins tvær klukkustundir árið 1956. Á hinn bóginn geta met staðið í áratugi. Elsta núgildandi heimsmet í frjálsum íþróttum hefur nú staðið síðan 1983, eða í þrjátíu og sex ár. Metið stendur í grein Anítu Hinriksdóttur, 800 metra hlaupi.

Methafinn er Tékki, Jarmila Kratochvílóvá, og keppti fyrir Tékkóslóvakíu sálugu. Kratochvílóvá er magnaður afreksmaður því hún skaraði fram úr bæði í 400 metra hlaupi og 800 metra. Ekki er hlaupið að því þótt hlauparar kunni að vera framúrskarandi í annarri hvorri vegalengdinni. Munurinn á þessum greinum er meiri en hinn almenni áhugamaður getur gert sér fyllilega grein fyrir.

Gull í tveimur greinum

Árið 1983 var ár Kratochvílóvu, en það sumarið setti hún heimsmet í báðum greinum. Hinn 26. júlí 1983 setti hún heimsmetið í 800 metra hlaupi á móti í München. Tíminn var undraverður: 1:53,28 mínútur. Fyrri hringinn hljóp hún á 56,1 sekúndu, en hraðanum í fyrri hluta hlaupsins var haldið uppi af hinni þýsku Petru Kleinbrahm. Á síðari hringnum áttu keppinautarnir ekki nokkra möguleika og Jolanta Januchta frá Póllandi, sem hafnaði í 2. sæti, var heilum sjö sekúndum á eftir.

Kratochvílóva lét ekki þar við sitja sumarið 1983 og nældi í gullverðlaun í 800 og 400 metrunum á HM í Helsinki síðar um sumarið. Slíkt hafði aldrei gerst áður á HM. Er ekki öll sagan sögð því á HM setti sú tékkneska heimsmet í 400 metra hlaupinu á tímanum 47,99 sekúndum. Stóð það met í tvö ár. Kratochvílóva stal senunni á HM 1983, en á þeim tíma voru miklar kempur að hefja sína vegferð: Sergey Bubka og Carl Lewis. Þegar hún sigraði í 800 metrunum hafði hún lokið við undanúrslitin í 400 metrunum aðeins hálftíma fyrr. Þrátt fyrir það var tíminn frábær í 800 metrunum og síðustu 200 metrana hljóp hún á 27,3 sekúndum. Var það betri endasprettur en hjá þremur hlaupurum í úrslitum 800 metra hlaups karla.

Ef við skoðum tímann í 800 metrunum í München, sem enn stendur óhaggaður sem heimsmet, hefur engin farið undir 1:54 mínútur síðan Kratochvílová gerði það. Metið á undan henni átti Nadezhda Olizarenko frá Sovétríkjunum, en hún hljóp á 1:53,43 mínútum árið 1980. Pamela Jelimo frá Kenía hljóp á 1:54,01 árið 2008 og hin umtalaða Caster Semenya frá Suður-Afríku á best 1:54,25. Íslandsmet Anítu Hinriksdóttur frá Ólympíuleikunum í Ríó er 2:00,14 mínútur.

Blómstraði seint á brautinni

Jarmila Kratochvílová fæddist hinn 26. janúar árið 1951 í litlum bæ, Golèùv Jeníkov, en íbúafjöldi þar er svipaður og á Egilsstöðum. Kratochvílová fékk vafalítið ágætt íþróttauppeldi en hún er þó þekkt fyrir að hafa blómstrað seint á hlaupabrautinni, í það minnsta þegar horft er til þess hvenær henni tókst að slá þeim bestu við.

Jarmila Kratochvílová heimsmethafi í 800 m hlaupi kvenna
Jarmila Kratochvílová heimsmethafi í 800 m hlaupi kvenna Reuters

Hún varð orðin 32 ára þegar hún setti heimsmetin sem um ræðir og hafði ekki farið undir 53 sekúndur í 400 metrunum fyrr en hún varð orðin 27 ára. Hún var sem dæmi á meðal keppenda á EM innanhúss í San Sebastian árið 1977 þegar Hreinn Halldórsson varð Evrópumeistari í kúluvarpi. Kratochvílová hljóp þá á 53,95 sekúndum. Hún var 29 ára þegar Ólympíuleikarnir fóru fram í Moskvu og þar fékk hún silfurverðlaun í 400 metra hlaupi. Eru það einu ólympíuverðlaun hennar en væntanlega hefði hún verið í baráttunni á leikunum árið 1984 í Los Angeles. Tékkar sniðgengu hins vegar leikana af pólitískum ástæðum eins og fleiri kommúnistaríki.

Vangaveltur um lyfjanotkun

Eins og ljósmyndir sýna glögglega var Kratochvílová líkamlega sterk og vöðvamassinn meiri en yfirleitt gengur og gerist hjá 800 metra hlaupurum. Í gegnum tíðina hefur verið rætt og ritað um mögulegt lyfjamisferli í hennar tilfelli, meðal annars vegna líkamlega styrksins en einnig vegna þess hversu seint hún sprakk út sem hlaupari. Kratochvílová féll aldrei á lyfjaprófi en lyfjaprófin voru fátíðari og frumstæðari á þeim tíma. Þar sem skipulagt lyfjamisferli í Sovétríkjunum og Austur-Þýskalandi hefur verið til umfjöllunar í gegnum tíðina þurfa aðrar Austur-Evrópuþjóðir að búa við það að fólk dragi þær ályktanir að þar hafi vinnubrögðin verið svipuð.

Sjálf hefur Kratochvílová ávallt neitað því að hafa notað lyf sem eru á bannlista til að bæta árangur sinn. Reis hún upp á afturlappirnar og mótmælti harðlega þegar umræða um að strika öll heimsmet út sem sett voru fyrir 2005 fór á flug. Málflutningur hennar hefur gengið út á að hún hafi lagt afar hart að sér og tekið inn mikið magn af B12-vítamíni. Þjálfari hennar til tveggja áratuga, Miroslav Kvac, tók iðulega í sama streng.

Jarmila Kratochvílóvá fór út í þjálfun eftir að keppnisferlinum sleppti.
Jarmila Kratochvílóvá fór út í þjálfun eftir að keppnisferlinum sleppti.

Fór út í þjálfun

Þegar ferlinum sleppti fór sú tékkneska sjálf út í þjálfun. Hefur hún þjálfað í frjálsum íþróttum og verið hluti af þjálfarateymi tékkneska landsliðsins. Hversu lengi glæsilegt met hennar mun standa er erfitt að segja til um en það virðist ekki beinlínis vera í hættu.

Ummæli hinnar rússnesku Svetlönu Masterkovu, ólympíumeistara í 800 metra hlaupi árið 1996, um metið eru athyglisverð. „Það á ekki að vera hægt fyrir konu að hlaupa svo hratt. Metið mun standa í 100 ár.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 29. nóvember 2019.

mbl.is