Reykjavíkurmaraþonið með breyttu sniði

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka verður með breyttu sniði í ár en ræst …
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka verður með breyttu sniði í ár en ræst verður meðal annars frá Sóleyjargötu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka verður haldið í 37. sinn 22. ágúst en fyrirkomulagið í ár verður með breyttu sniði vegna kórónuveirufaraldursins. Rássvæðið verður í Sóleyjargötu í ár og marksvæðið í Lækjargötu. Því mun upphaf hlaupaleiðanna breytast lítillega í kjölfarið.

Ræst verður í nokkrum ráshópum til að virða tilmæli um hámarksfjölda hlaupara en þá verður ræsingin yfir lengri tíma en áður hefur verið. Flögutími mun gilda til úrslita og mun Íslandsmeistari í hálfu maraþoni verða krýndur en ekki í maraþoni eins og tíðkast hefur undanfarin ár.

„Vegna fjöldatakmarkana er líklegt að uppselt verði í einhverjar vegalengdir í ár,“ segir í tilkynningu frá forráðamönnum hlaupsins. „Við hvetjum þá hlaupara sem eru ákveðnir að taka þátt að skrá sig sem fyrst. Einnig minnum við á hlaupastyrk og hvetjum hlaupara til að hlaupa til góðs og kynna sér þau góðgerðarfélög sem hægt er að safna fyrir á Hlaupastyrkur.is,“ segir enn fremur í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert