Sundafrek sem munu fylgja henni alla ævi

Eygló Ósk Gústafsdóttir
Eygló Ósk Gústafsdóttir Ljósmynd/Simone Castrovillari

Sundkonan Eygló Ósk Gústafsdóttir tilkynnti það á dögunum að hún hefði ákveðið að leggja sundhettuna á hilluna.

Eygló Ósk, sem er 25 ára gömul, byrjaði að æfa sund aðeins fimm ára gömul, en hún var kjörinn íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna árið 2015 en hún hefur verið að glíma við bakmeiðsli undanfarin ár.

Sundkonan vann til tvennra bronsverðlaun í baksundsgreinum á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug í Ísrael árið 2015 og þá keppti hún á Ólympíuleikunum í London 2012 og Ríó 2016.

Eygló Ósk er Íslandsmethafi í 100 og 200 m baksundi í 50 metra laug og í 50, 100 og 200 m baksundi og í 1.500 m skriðsundi í 25 metra laug.

„Það er margar mismunandi ástæður fyrir því að ég hef ákveðið að kalla þetta gott,“ sagði Eygló Ósk í samtali við Morgunblaðið. „Þegar allt kemur til alls þá voru það einna helst fjárhagslegar ástæður og svo meiðsli sem ég hef verið að glíma við undanfarin þrjú ár. Ég hef einfaldlega ekki náð mér almennilega á strik, síðustu þrjú árin, og það hefur tekið á, bæði andlega og þegar kemur að almennri hvatningu.

Ég hef verið með styrk frá Ólympíusamhjálpinni og þeir hafa borgað fyrir allan sundtengdan kostnað en það var eini fjárhagslegi styrkurinn sem ég var með þetta árið. Eins og staðan er í dag er ég 25 ára gömul og ég bý enn þá hjá foreldrum mínum. Ég var líka farin að leiða hugann að því að fá mér vinnu, safna pening, og flytja einhverntímann að heiman og það spilaði líka inn í þessa ákvörðun mína.

Markmiðið hjá mér var alltaf að fara á Ólympíuleikana í sumar og kalla þetta svo gott. Þegar þeim var svo frestað vegna kórónuveirunnar þurfti ég að taka ákvörðun um það hvort ég ætti að taka eitt ár í viðbót eða láta staðar numið. Ég fór fram og til baka og þetta var erfið ákvörðun að taka en að lokum ákvað ég einfaldlega að leggja sundhettuna á hilluna.“

Viðtalið við Eygló má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert