Enn eitt Íslandsmetið slegið

Hlynur Andrésson.
Hlynur Andrésson. mbl.is/Árni Sæberg

Hlynur Andrésson sló í gær sitt eigið Íslandsmet í 3.000 metra hlaupi á móti í Hollandi. Hlynur kom í mark á tímanum 8:02,60 og bætti því eigið met um rétt tæpar tvær sekúndur.

Fyrra metið setti Hlynur þann 10. júlí og sló hann þá 37 ára gamalt Íslandsmet Jóns Diðrikssonar sem var sett árið 1983, tíu árum áður en Hlynur fæddist. Hann var einni sekúndu frá sigri í hlaupinu í gær en endaði rétt á eftir Dananum Stan Niesten.

Hlynur virðist vera í fantaformi en hann keppir næst í 5.000 metra hlaupi eftir tvær vikur. Hann á sjálfur Íslandsmetið í þeirri grein, hljóp á 13:57,89 mínútum í júlí á síðasta ári.

mbl.is