Danskur ráðherra eyðir svívirðingum um FCK

Leikur FC Kø­ben­havn og Manchester United stendur nú yfir. Þegar …
Leikur FC Kø­ben­havn og Manchester United stendur nú yfir. Þegar þetta er skrifað er markalaust og stefnir í framlengingu. AFP

Knattspyrnufélagið FC Kø­ben­havn hefur farið fram á að útlendinga- og aðlögunarráðherra Danmerkur, Mattias Tesfaye, biðjist afsökunar á að hafa óskað þess á Twitter að liðið myndi tapa leik sínum gegn Manchester United í Evrópukeppninni, sem fram fer í kvöld.

Nokkrum tímum áður en leikur hófst skrifaði Tesfaye á Twitter: „FCK-United. Mig hefði aldrei dreymt að vona að þau félög myndu nokkurn tímann vinna fótboltaleik. En hvaða lið vil ég frekar að tapi? Ég vona að Júdas Stage og Kamil Paycheck tapi.“

Vísaði hann þar til leikmannanna Jens Stage og Kamil Wilzek, sem áður voru stórstjörnur hjá AGF og Brøndby en gengu síðar til liðs við Kaupmannahafnarstórveldið. Má af uppnefnunum ráða að ráðherranum þyki ekki mikið til leikmannanna koma; þeir hafi svikið lið sín fyrir peninga. Ráðherrann hefur síðar eytt færslunni.

Í yfirlýsingu frá FCK, sem birt er á heimasíðu félagsins, segir að eitt sé að rígur geti verið milli aðdáenda, en að ráðherra láti slík ummæli falla sé óskiljanlegt og óásættanlegt. „Það er rangt gagnvar leikmönnunum en einnig fjölskyldum þeirra, sem þegar hafa þurft að þola mikið. Því væntum við vitanlega opinberrar afsökunarbeiðni frá ráðherranum.“ Þá er enn fremur bent á að skrítið sé að danskur ráðherra skuli ekki óska liðinu góðs gengis gegn erlendum andstæðingum, þegar félagið veitir hundruð manns atvinnu í Danmörku.  

mbl.is