Veiran spyr ekki hvort þú sért í afreksíþróttum

Síðast var leikið í úrvalsdeild karla í körfuknattleik 6. október.
Síðast var leikið í úrvalsdeild karla í körfuknattleik 6. október. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hljóðið í íþróttahreyfingunni hér á landi er þungt þessa dagana en í vikunni tilkynntu yfirvöld í samráði við sóttvarnalækni að æfinga- og keppnisbann yrði áfram við lýði næstu daga vegna þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins.

Staðan verður skoðuð á nýjan leik 9. desember en til stóð að heimila æfingar afreksíþróttafólks og meistaraflokka hér á landi 2. desember.

Bæði Handknattleikssamband Íslands, HSÍ, og Körfuknattleikssamband Íslands, KKÍ, hafa frestað öllu mótahaldi fram yfir áramót.

Á miðvikudaginn sendu leikmenn í úrvalsdeildum karla og kvenna í körfuknattleik frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir skoruðu á stjórnvöld að leyfa æfingar afreksíþróttafólks á nýjan leik.

Þá hafa stór nöfn innan íþróttahreyfingarinnar gagnrýnt sóttvarnayfirvöld harðlega fyrir aðgerðir þeirra í garð afreksíþróttafólks.

„Mér finnst þessi gagnrýni alls ekki óréttmæt og ég skil hana vel,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við Morgunblaðið.

„Það er hins vegar þannig að við erum búin að vera með ákveðnar aðgerðir í gangi í langan tíma sem hafa komið illa við ferðaþjónustuna, skólasamfélagið og sérstaklega eldribekkinga í framhalds- og háskóla. Við höfum verið með íþyngjandi aðgerðir gagnvart einyrkjum sem hafa verið nánast tekjulausir. Þurft hefur að loka sundlaugum og líkamsræktarstöðvum og listamenn hafa ekki fengið að stunda sína vinnu þannig að þessar aðgerðir hafa komið illa við marga, ekki bara íþróttafólk.

Það er líka vert að minnast á það að með þessum aðgerðum hefur okkur tekist að halda kúrfunni niðri og við erum með lægstu tíðni kórónuveirusmita í Evrópu. Þá eru bæði heilbrigðiskerfið og Landspítalinn að ná vopnum sínum aftur og geta nú farið að sinna öðrum verkefnum og sjúklingum sem hafa setið á hakanum. Þessu hefðum við ekki náð ef við hefðum ekki beitt þessum aðgerðum.“

Eina sem hefur virkað

Þórólfur hefur verið gagnrýndur innan íþróttahreyfingarinnar fyrir að setja afreksíþróttafólk undir sama hatt og venjulegt fólk sem stundar líkamsrækt og þá eru margir ósáttir við það að fólk sem stundar einstaklingsíþróttir geti ekki æft sína íþrótt.

„Það er bara ekki rétt að afreksíþróttafólk sé sett undir sama hatt og allir aðrir. Það hafa verið veittar undanþágur fyrir afreksfólk og fólk sem er að keppa á alþjóðlegum vettvangi. Það hafa því ekki allir þurft að lúta þessum reglum og það er ekki rétt að segja að íþróttastarf hafi stöðvast. Þessar aðgerðir eru hluti af þeim víðtæku takmörkunum sem við höfum þurft að grípa til til þess að stoppa þennan faraldur.“

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »