Þrefaldur norskur sigur

Hans Christer Holund fagnar heimsmeistaratitlinum í Oberstdorf í dag.
Hans Christer Holund fagnar heimsmeistaratitlinum í Oberstdorf í dag. AFP

Norðmenn hirtu öll verðlaunin í 15 kílómetra skíðagöngu karla á heimsmeistaramótinu í norrænum greinum í Oberstdorf í Þýskalandi í dag.

Hans Christer Holund vann sannfærandi sigur á 33:48,7 mínútum og kom í mark rúmum 20 sekúndum á undan landa sínum Simen Hegstad Krüger sem gekk brautina á 34:08,9 mínútum. Bronsið fékk svo þriðji Norðmaðurinn, Harald Östberg Amundsen, á 34:24,3 mínútum.

Þeir Holund og Krüger keppa báðir fyrir Lyn í Ósló sem fagnar einmitt 125 ára afmæli í dag og gat vart fengið betri afmælisgjöf en gull- og silfurverðlaunahafa á heimsmeistaramóti.

Snorri Eyþór Einarsson var með rásnúmer 23 en kom í mark á 38:13,0 mínútum og er sem stendur í 57. sæti. Þó nokkrir eiga eftir að ljúka göngunni, þar á meðal Albert Jónsson sem var með rásnúmer 101.

Uppfært kl. 13:56
Albert Jónsson kom í mark í 96. sæti á 42:28,1 mínútum. Snorri hafði þá sigið niður í 59. sæti en endanleg röð keppenda liggur ekki fyrir.

mbl.is