Ljúka tveimur þriðju en aflýsa frestuðum leikjum

Íslandsmótið í blaki hefst á ný 21. apríl.
Íslandsmótið í blaki hefst á ný 21. apríl. mbl.is/Kristinn Magnússon

Blaksamband Íslands ákvað í dag að ljúka þeim leikjum sem eftir eru á Íslandsmóti í efstu deildum karla og kvenna, samkvæmt mótaskrá, en aflýsa þeim leikjum sem féllu niður á meðan keppni lá niðri frá 25. mars til 15. apríl.

Keppni hefst á ný á miðvikudaginn kemur, 21. apríl.

Með þessu verður hægt að ljúka 2/3 hlutum af leikjum í Mizuno-deildum karla og kvenna og 1. deild kvenna, og þar með ljúka keppni samkvæmt Covid-reglugerð sambandsins og krýna deildarmeistara eftir þeirri stöðu sem þá er í deildunum. Í reglugerðinni kveður á um að reikniregla ráði endanlegri stöðu liðanna í deildinni.

Ekki var hins vegar ákveðið hvert fyrirkomulag úrslitakeppni Íslandsmótsins verður og mótanefnd og stjórn Blaksambands Íslands ætla að gefa sér nokkra daga í viðbót til að finna út úr því. Þá er Íslandsmóti neðri deilda aflýst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert