Fyrstur út úr skápnum meðan á ferlinum stendur

Carl Nassib er leikmaður Las Vegas Raiders.
Carl Nassib er leikmaður Las Vegas Raiders. AFP

Carl Nassib er fyrsti leikmaðurinn í sögu NFL-deildarinnar í amerískum fótbolta sem kemur út úr skápnum á meðan hann er enn að spila. Nassib, sem leikur með Las Vegas Raiders, tilkynnti þetta á Instagram-aðgangi sínum í gær.

„Mig langaði bara að greina snöggvast frá því að ég er samkynhneigður. Ég hef ætlað mér að gera þetta fyrr en líður loks nógu vel til þess að koma þessu frá mér.

Líf mitt er frábært, ég á bestu fjölskylduna, bestu vinina og er með bestu vinnu sem hægt er að hugsa sér,“ sagði Nassib í myndskeiði á Instagram.

Nokkur fjöldi leikmanna í NFL-deildinni hefur komið út úr skápnum en í öllum tilfellum hafa þeir verið búnir að leggja skóna á hilluna þegar þeir tilkynntu að þeir væru samkynhneigðir.

Nassib sagðist hlédrægur að eðlisfari og væri því ekki að tilkynna þetta í von um að fá athygli.

„Mér finnst bara að sýnileiki sé mikilvægur. Ég vona að einn daginn verði ekki þörf á myndskeiðum sem þessum og öllu ferlinu sem snýr að því koma út úr skápnum. En þar til það verður raunin ætla ég að gera mitt besta til að hjálpa til við að koma á fót kúltúr sem er móttækilegur og einkennist af umhyggju.“

Nassib tilkynnti á sama tíma að hann hefði styrkt Trevor-verkefnið um 100.000 bandaríkjadollara. Trevor-verkefnið eru samtök sem einblína á að koma í veg fyrir sjálfsvíg á meðal LGBTQ+ ungmenna þar í landi.

Stuðningskveðjum hefur rignt yfir Nassib í kjölfar tilkynningar hans, þar á meðal frá yfirmanni NFL-deildarinnar, Roger Goodell, og fjölda leikmanna og þjálfara deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert