Slapp við bann þrátt fyrir fall á lyfjaprófi

Sergey Shubenkov slapp við langt keppnisbann.
Sergey Shubenkov slapp við langt keppnisbann. AFP

Rússinn Sergey Shubenkov, fyrrverandi heimsmeistari í grindahlaupi, sleppur við keppnisbann þrátt fyrir að hafa fallið á lyfjaprófi. Fallist var á skýringar hans um að hann hefði óvart innbyrt lyf þriggja mánaða sonar síns.

Samtök um heiðarleika í frjálsíþróttum (AIU) komust að þeirri niðurstöðu að mál hins þrítuga Shubenkov væri sannarlega einstætt.

Efnið acetazolamíð greindist í blóði Shubenkov í desember 2020, en það getur komið í veg fyrir að frammistöðubætandi lyf greinist á lyfjaprófi og er á bannlista Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar (WADA).

Shubenkov sagðist hafa verið að gera þvagræsilyf tilbúið til inntöku fyrir þriggja mánaða son sinn, og benti á að svo ung börn geti vitanlega ekki gleypt.

Því hafi hann þurft að kremja pillurnar sem hafi endað með því að hann hafi óvart innbyrt eitthvað af „nánast ósýnilegu“ púðrinu sem stóð eftir, eins og hann orðaði það sjálfur.

Nefnd á vegum AIU féllst á þær skýringar Shubenkov og sleppur hann þar með við fjögurra ára keppnisbann sem hann stóð frammi fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert