Landsliðskona frá Akureyri fyrst í sænsku úrvalsdeildina

Silvía Rán Björgvinsdóttir í landsleik.
Silvía Rán Björgvinsdóttir í landsleik. Ljósmynd/Elvar Freyr Pálsson/ÍHÍ

Akureyringurinn Silvía Rán Björgvinsdóttir er fyrsti Íslendingurinn sem semur við lið í úrvalsdeild í einni af sterkustu íshokkídeildum heims en hún hefur skrifað undir samning við Göteborg HC í Svíþjóð.

Hún er þó ekki fyrsti Íslendingurinn sem spilar með félaginu, Diljá Sif Björgvinsdóttir systir Silvíu lék áður með Göteborg HC en þá lék liðið í næstefstu deild.

Á heimasíðu Göteborg HC er sagt að félagið hafi fylgst með Silvíu Rán um árabil, hún skori mikið af mörkum og fullvíst sé talið að hún eigi eftir að koma mörgum markvörðum í sænsku úrvalsdeildinni í opna skjöldu í vetur.

Silvía segir í viðtali við heimasíðuna að það sé mikill heiður að fá þetta tækifæri til að koma sér upp á næsta þrep. Markmiðið fyrir fyrsta tímabilið sé að auka færnina og andlegan styrk, vera besta útgáfan af sjálfri sér og hjálpa liðinu til að standa sig vel og vinna eins marga leiki og mögulegt sé.

Silvía er 22 ára gömul og margfaldur Íslandsmeistari með Skautafélagi Akureyrar ásamt því að hafa verið í stóru hlutverki í íslenska landsliðinu undanfarin ár.

Silvía Rán Björgvinsdóttir hefur verið afar sigursæl með Skautafélagi Akureyrar.
Silvía Rán Björgvinsdóttir hefur verið afar sigursæl með Skautafélagi Akureyrar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert