Landsliðsþjálfari sakaður um ölvunarakstur – formaðurinn segir af sér

Kristinn Arason sagði af sér vegna ósættis með ákvörðun stjórnar …
Kristinn Arason sagði af sér vegna ósættis með ákvörðun stjórnar Fimleikasambands Íslands. Ljósmynd/Fimleikasamband Íslands

Kristinn Arason hefur sagt af sér sem formaður Fimleikasambands Íslands. Þetta gerði hann á fundi sem lauk nú í kvöld, vegna þeirrar ákvörðunar stjórnarinnar að ráða að nýju landsliðsþjálfara sem er sagður hafa keyrt drukkinn eftir Norðurlandamót í sumar.

Þjálfarinn, sem um ræðir, er sagður hafa farið í tvö samkvæmi kvöldið sem Norðurlandamótinu lauk í júní síðastliðnum. Að sögn vitna, m.a. landsliðsfólks, hafði þjálfarinn áfengi um hönd í báðum samkvæmum og keyrði að lokum heim undir töluverðum áhrifum áfengis.

Þetta kemur fram í skýrslu sem mbl.is hefur undir höndum. Þrátt fyrir meinta hegðun þjálfarans ákvað stjórn Fimleikasambandsins að ráða hann aftur sem landsliðsþjálfara, með ofangreindum afleiðingum.

mbl.is