„Alltaf verið að ræða málin“

Vésteinn Hafsteinsson.
Vésteinn Hafsteinsson. mbl.is/Ívar Benediktsson

„Við erum búin að ræða málin í þrjá og hálfan mánuð. Þetta kom upp í byrjun október en hefur í sjálfu sér kannski komið upp nokkrum sinnum áður,“ segir Vésteinn Hafsteinsson nýráðinn afreksstjóri ÍSÍ, í samtali við mbl.is um aðdraganda ráðningarinnar.

„Ég var fengin heim til að spjalla um svipaða hluti í kringum 2014. Það var svona til skrafs og ráðagerða með ÍSÍ og ÍBR um einhvers konar afreksmiðstöð í Laugardal. Það varð ekkert úr því en það voru góðar umræður. Síðan hef ég verið að ræða afreksmálin við kollega mína.“

Hentaði vel

Vésteinn segist alltaf hafa verið í sambandi við Íslendinga og að hann eigi marga góða kunningja hér heima úr mismunandi íþróttum og í háskólunum.

„Ég kom heim í vor í kringum kringlukastsmót á Selfossi og málin voru mikið rædd þá og svo kom ég í september svo það er alltaf verið að ræða málin. Þetta starf kom síðan upp í hendurnar á mér og það hentaði vel miðað við hvar ég er á mínum ferli.“

Mér fannst annað ómögulegt en að ég myndi að minnsta kosti sækja um starfið en ég bjóst ekki endilega við að það gengi upp að koma því öllu heim og saman. Ég fékk svo símtal í október og síðan höfum við verið að tala saman.“

mbl.is