Johnson vann eftir bráðabana

Dustin Johnson (til vinstri) lagði Jordan Spieth (til hægri) í ...
Dustin Johnson (til vinstri) lagði Jordan Spieth (til hægri) í bráðabana. AFP

Atvinnukylfingurinn Dustin Johnson fagnaði sigri í gær á Northern Trust-mótinu í golfi, en mótið er fyrsta mótið í umspilinu um FedEx-bikarinn. Jordan Spieth var með þriggja högga forystu fyrir daginn, en hann jók forystuna í fimm högg á hringnum, en fékk skramba stuttu síðar. Johnson gaf þá rækilega í og lék frábært golf á síðustu holunum, en hann setti í fimm metra langt pútt á 18. holu sem kom honum í bráðabana.

Bandaríkjamennirnir luku leik á 13 höggum undir pari, fjórum höggum betri en næstu menn og héldu svo á fyrstu holu bráðabanans. Spieth tókst ekki að setja í nokkuð langt pútt fyrir fugli, en Johnson setti innáhöggið metra frá holu sem hann púttaði í og tryggði sér þar með sigurinn.

„Ég er að sveifla mjög vel, ég hef mikla stjórn á boltanum og mér líður mjög vel. Það gefur mér mikið sjálfstraust að vinna hérna sem mun fylgja mér inn í næstu helgi og það sem eftir er af umspilinu,“ sagði Johnson eftir hringinn í gær.

mbl.is