Ólafía: Ég sá þetta fyrir mér

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

„Þetta er búin að vera ótrúlega góð vika,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir eftir að hafa náð sínum besta árangri á LPGA-mótaröðinni í golfi, þeirri sterkustu í heimi, en hún hafnaði í 4. sæti í Indianapolis eins og ítarlega hefur verið fjallað um á mbl.is.

Sjá: Ólafía í þriðja sæti eft­ir ótrú­lega loka­holu

Ólafía lék samtals á 13 höggum undir pari og hafnaði í fjórða sæti, en hvað fannst henni um frammistöðuna?

„Ég var að pútta ótrúlega vel og gera allt mjög vel, svo þetta var frekar einfalt og það er frábært þegar það er svoleiðis,“ sagði Ólafía.

Hún átti högg dagsins á 18. holu þegar hún fékk örn, en vipp hennar utan flatar fór þá rakleiðis ofan í holu. Hvað hafði hún að segja um þetta lokahögg sitt?

„Ég átti geggjaða æfingasveiflu og gerði alveg eins í högginu. Ég sá þetta fyrir mér og það bara tókst,“ sagði Ólafía hæstánægð.

Sjá: Ólafía átti högg dagsins (myndskeið)

mbl.is