Sigurvegari helgarinnar nálgast Ryder

Bryson DeChambeau bar sigur úr býtum.
Bryson DeChambeau bar sigur úr býtum. AFP

Bryson DeChambeau bar sigur úr býtum á Northern Trust-mótinu í golfi í PGA-mótaröðinni um helgina. Hann lék fjóra hringi á samtals 18 höggum undir pari, fjórum höggum betur en Tony Finau sem varð annar. 

Með sigrinum er DeChambeau líklegast búinn að spila sig í Ryder-lið Bandaríkjanna en keppt er um Ryder-bikarinn í lok september. Átta stigahæstu kylfingar úr risamótunum fjórum eru sjálfkrafa valdir í Ryder-liðið og fyrirliði liðsins velur fjóra til viðbótar. 

DeChambeu komst ekki í gegnum niðurskurðinn á PGA-meistaramótinu og hafnaði í níunda sæti stigalistans. Allar líkur eru hins vegar á því að Jim Furyk velji De Chambeu, sem hefur unnið tvö mót á PGA-mótaröðinni á tímabilinu, í lið sitt fyrir mótið.

Þrír af fjórum síðustu kylfingunum eru valdir fyrir 3. september og sá fjórði og síðasti fyrir 9. september. 

Tiger Woods er einn þeirra sem þykir líklegur til að vera valinn í liðið. Hann hafnaði í 40. sæti á samtals 4 höggum undir pari. Tiger þótti slá mjög vel í mótinu en gekk ekki eins vel á flötunum. Tiger benti á í samtali við Sky Sports að hann hafi fengið samtals tíu fugla á 72 holum í mótinu og það sé of lítið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert