Gullbjörninn skreið úr híðinu

Bernhard Langer, sigurvegari árið 1985, klæðir Jack Nicklaus í græna …
Bernhard Langer, sigurvegari árið 1985, klæðir Jack Nicklaus í græna jakkann á Augusta árið 1986. Reuters

Þegar „Gullbjörninn“ Jack Nicklaus sigraði á Masters-mótinu á Augusta National-vellinum í Georgíuríki í Bandaríkjunum árið 1986 var hann orðinn 46 ára gamall. Varð hann þar með sá elsti til að sigra á mótinu og stendur metið enn óhaggað. 

Nicklaus bætti í leiðinni eigið met hvað varðar fjölda risatitla. Var þetta hans síðasti sigur á risamóti en Nicklaus státar af átján slíkum titlum. Lengi var talið að Tiger Woods gæti skákað honum í þeirri deild en slíkum spádómum fer nú ört fækkandi.

Í aðdraganda mótsins var Nicklaus ekki talinn líklegur sigurvegari. Alls ekki. Hann var ennþá fær um að spila gott golf og gat á góðum degi verið á heimsmælikvarða. Risamót hafði hann ekki unnið síðan 1980 og Masters hafði hann ekki unnið síðan 1978. Á þessum árum voru menn taldir útbrunnir eða svo gott sem þegar 46 ára aldri var náð. Blaðamaðurinn Tom McCollister skrifaði raunar í Atlanta Journal-Constitution að Nicklaus væri útbrunninn. Hleypti það illu blóði í Gullbjörninn þó að hann ljóstraði því þó ekki upp fyrr en síðar. Vinur hans hengdi blaðagreinina á ísskápinn í húsinu þar sem Nicklaus og kona hans Barbara gistu.

Athyglisvert er að gamla kempan Arnold Palmer sagði í sjónvarpsviðtali í aðdraganda mótsins að hann sæi alveg fyrir sér að Jack Nicklaus gæti enn þá unnið risamót. Hann tók það fram að hann sjálfur hefði ekki getað það 46 ára gamall en sagðist ekki sjá hvers vegna Nicklaus gæti það ekki. Palmer veit hvað hann syngur enda vann hann sjö sinnum risamót á ferlinum og Masters fjórum sinnum. Fáir tóku hins vegar þessi ummæli hans alvarlega.

Taldi 65 nægja til sigurs

Hér verður hlaupið hratt yfir sögu varðandi fyrstu þrjá keppnisdagana á Masters árið 1986. Nicklaus lék nokkuð vel fyrstu þrjá dagana og var ekki í miklum vandræðum. Hins vegar púttaði hann ekki eins vel og hann gat gert á góðum degi og fuglarnir létu því bíða eftir sér. Fyrir vikið var hann fjórum höggum á eftir efsta manni, Hvíta hákarlinum Greg Norman, fyrir lokahringinn. Nicklaus var jafn sex öðrum í 9. sæti og litlar líkur taldar á því að hann myndi berjast um sigurinn.

Nicklaus hafði auðvitað marga fjöruna sopið í íþróttinni og hann reyndi að sjá fyrir sér atburðarásina á lokadeginum. Nicklaus sagði við son sinn, Jack Nicklaus jr. sem var kylfuberi hans í mótinu, að 65 högg á lokahringnum gætu dugað til að vinna mótið. 66 högg gætu ef til vill dugað til þess að komast í bráðabana. Þegar þarna var komið sögu hafði Nicklaus leikið hringina þrjá á 74, 71 og 69 höggum. Var hann því samtals á tveimur undir pari Augusta National-vallarins.

Jack Nicklaus í heimsókn hjá Golfklúbbi Akureyrar þar sem hann …
Jack Nicklaus í heimsókn hjá Golfklúbbi Akureyrar þar sem hann er heiðursfélagi. Hér virðir hann fyrir sér myndasyrpu frá því hann lék á Jaðarsvelli hinn 26. júlí árið 1992. Nicklaus hefur nokkrum sinnum komið til landsins til að renna fyrir lax. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Toppmenn í baráttunni

Nicklaus þurfti ekki einungis að setja fjórtán kylfinga aftur fyrir sig á lokahringnum heldur voru margir þeirra í hópi allra snjöllustu kylfinga heims árið 1986. Auk Normans, sem lengi var í efsta sæti heimslistans, voru stórstjörnur í baráttunni eins og Seve Ballesteros, Bernhard Langer og Tom Watson. Ballesteros og Langer voru einu höggi á eftir Norman en Watson tveimur á eftir. Þremenningarnir unnu Masters tvívegis hver um sig.

Fleiri sterkir kylfingar voru í baráttunni en þessir sem hér hafa verið nefndir. Nick Price var einnig höggi á eftir Norman en hann sigraði þrisvar á risamótum á ferlinum. Hann setti vallarmet á þriðja hring, 63 högg, og mótið árið 1986 var hans besti möguleiki til að vinna Masters þegar upp var staðið. Þá er enn ónefndur Bandaríkjamaðurinn Tom Kite sem var á 4 undir pari eins og Watson. Hann komst þrívegis nálægt því að vinna Masters en tókst ekki. Þá voru Sandy Lyle og Corey Pavin á meðal þeirra sem voru jafnir Nicklaus að loknum 54 holum.

Fór í gang á 9. holu

Sigur Nicklaus var enn merkilegri vegna þeirrar staðreyndar að hann fór einnig rólega af stað á lokahringnum. Hann var á pari á lokahringnum eftir átta holur og sex höggum á eftir efsta manni. En loksins setti hann niður pútt fyrir fugli á 9. holu og þá hrökk kappinn í gang. Fuglar fylgdu á næstu tveimur holum og áhorfendur sem og fjölmiðlamenn fóru að gæla við þann möguleika að goðsögnin gæti mögulega blandað sér í baráttuna. Hann fékk hins vegar skolla á hinni fallegu par 3. holu sem er 12. hola á Augusta. Vonbrigði áhorfenda leyndu sér ekki og þarna virtist sem áhlaup Nicklaus yrði að engu. Hann var þarna þremur höggum á eftir efsta manni.

Þá kom hins vegar magnaður kafli hjá Gullbirninum sem gerir mótið 1986 að einu því eftirminnilegasta í sögu Masters en árið 1986 fór mótið fram í fimmtugasta sinn. Nicklaus náði í fugl á 13. holu en paraði 14. Ballesteros fékk örn á 13. holu og náði þriggja högga forystu. Sigurinn virtist vera hans. Norman hafði verið í vandræðum framan af lokahringnum og fékk skramba á 10. holu. Tom Kite virtist vera sá eini sem gæti sett pressu á Spánverjann á lokakaflanum. 

Þá réðst Gullbjörninn til atlögu á 15. holunni sem er par 5. Hann sló stórkostlegt högg með 4-járni yfir vatnið í öðru höggi og náði að láta boltann stöðvast á flötinni, um 4 metra frá holunni. Kappinn var kominn í gang og rak púttið að sjálfsögðu í fyrir erni. Nicklaus hafði oft sýnt frábær tilþrif á 16. holunni, sem er par 3. Þar fór hann hér um bil holu í höggi með 5-járni og náði í fugl. „Vertu rétta kylfan,“ sagði sonurinn við boltann eftir að pabbinn lét vaða og Nicklaus svaraði um leið „Hún er það.“ Nicklaus beygði sig strax eftir tíinu og var greinilega viss í sinni sök.

Á þessum tímapunkti ærðust áhorfendur gersamlega og það hafði sín áhrif annars staðar á vellinum. Ballesteros hafði hitt braut í upphafshögginu á 15. holu. Annað höggið sló hann í vatnið eftir að hafa heyrt fagnarlætin sem fylgdu Nicklaus. Tom Kite sagði í sjónvarpsþætti löngu síðar að höggið hefði verið eitt það lélegasta sem hann hefur séð atvinnumann í háum gæðaflokki slá. Sjálfur sagði Ballesteros að örlögin hefðu gripið í taumana og því trúði hann í einlægni.

Lék seinni 9 á 30 höggum

Nicklaus bætti við enn einum fuglinum á 17. holu en þar koma ekki margir fuglar á lokadegi Masters. Rak hann þá pútterinn upp í loftið og eru sjónvarps- og blaðamyndir af því fyrir löngu orðnar frægar. Pútt Nicklaus fyrir fugli stöðvaðist á holubrúninni á síðustu holunni. Faðmaði hann soninn og þeir gengu kátir upp í klúbbhúsið og biðu þess sem verða vildi. Nicklaus hafði leikið lokahringinn á 65 höggum og seinni 9 holurnar á 30 höggum.

Jack Nicklaus rekur púttið í á 17. flötinni.
Jack Nicklaus rekur púttið í á 17. flötinni. "Yes sir" galaði Verne Lundquist við þetta tilefni en hann lýsti lokahringnum í beinni útsendingu CBS sjónvarpsstöðvarinnar. AP

Ballesteros missti gersamlega dampinn og það hafði Langer gert snemma á hringnum. Price og Watson voru of langt á eftir en Kite gat jafnað við Nicklaus á 18. holu. Fremur stutt pútt hans fyrir fugli lak framhjá holunni. „Stöðvaðist kúlan aðeins um einum sentimetra frá holunni,“ sagði Morgunblaðið 15. apríl 1986.

Þá var það einungis Norman sem gat skákað Nicklaus. Eftir slæman hring hafði hann sýnt mikið keppnisskap og náði góðum spretti og ótrúlegum fugli á 17. holu. Hann þurfti par á 18. holu til að jafna og komast í bráðabana. Hann hitti brautina en sló annað höggið langt til hægri í áhorfendaskarann. Þarna vilja margir meina að Norman hafi farið á taugum en honum tókst aldrei að vinna Masters. Hann var hins vegar ekki sá eini sem fór á taugum þennan eftirmiðdag þegar Gullbjörninn sýndi klærnar og fékk áhorfendur á sitt band.

Móðir hans mætti í fyrsta skipti í 27 ár

Norman fékk skolla á 18. holunni og Nicklaus fagnaði sigri með fjölskyldunni. Systir hans hafði tekið upp á því að mæta á Masters í fyrsta skipti og móðir hans ákvað að fara einu sinni enn á Masters en það hafði hún ekki gert síðan 1959. Urðu þær vitni að mögnuðu afreki hjá sínum manni.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 8. apríl 2015

Jack Nicklaus á sínu síðasta risamóti á Gamla vellinum á …
Jack Nicklaus á sínu síðasta risamóti á Gamla vellinum á St. Andrews árið 2005, þá 65 ára gamall. Reuters
mbl.is