Er í baráttu um að halda keppnisréttinum

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. Ljósmynd/GSÍ

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Leyni á Akranesi, verður í eldlínunni á Andalucia Costa del Sol-mótinu í golfi sem hefst á fimmtudaginn en mótið er hluti af LET-Evrópumótaröðinni. Þetta kemur fram á golf.is.

Þetta er næstsíðasta mótið á tímabilinu en Valdís tekur einnig þátt í lokamótinu sem haldið verður í Kenía 5.-8. desember.

Mótin á Spáni og í Afríku verða 15. og 16. mótið í LET-Evrópumótaröðinni hjá Valdísi Þóru á þessu tímabili. Hún hefur komist í gegnum niðurskurðinn á átta mótum af alls 14. Besti árangur hennar er 5. sætið á þessu tímabili.

Valdís Þóra er sem stendur í 82. sæti stigalista LET-Evrópumótaraðarinnar. Hún er í harðri baráttu um að halda keppnisrétti sínum á mótaröðinni en 70 efstu sætin tryggja öruggt sæti í LET Evrópumótaröðinni á næsta tímabili

mbl.is