Ég er ekki svindlari

Patrick Reed á æfingu í Melbourne í gær.
Patrick Reed á æfingu í Melbourne í gær. AFP

Bandaríski kylfingurinn Patrick Reed hefur mátt þola gagnrýni og glósur síðasta sólarhringinn, í kjölfarið á atviki á Hero World Challenge-golfmótinu sem lauk á Bahamaeyjum á sunnudaginn.

Þar fékk Reed á sig tveggja högga víti fyrir að hreinsa sand frá boltanum með æfingasveiflu og atvikið er talsvert í sviðsljósinu fyrir einvígi Bandaríkjanna og heimsliðsins utan Evrópu sem hefst í Melbourne í Ástralíu á fimmtudaginn.

Haft hefur verið eftir kylfingum úr heimsliðinu að Reed hafi svindlað á mótinu og hann er ekki sáttur við þá meðferð.

„Það er ekki rétta orðið. Ef þú gerir eitthvað óvart og brýtur þannig reglur þá ertu ekki að svindla. Ef ég hefði ætlað mér að gera það, þá hefði það verið svindl, en ég reyndi ekki að laga stöðu boltans á neinn hátt. Þetta er bara rangt, ég er ekki svindlari,“ sagði Reed á fréttamannafundi í Melbourne í morgun.

„Auðvitað láta þeir svona því þeir vilja koma áhorfendum betur á sitt band fyrir mótið. Þannig er þessi leikur. Fyrir vikið verður þetta persónulegra og við eigum því skemmtilega viku fram undan. Ég vona að allar glósur frá áhorfendum verið innan siðsamlegra marka og nú er ég bara enn einbeittari en áður í að vinna,“ sagði Reed enn fremur.

mbl.is