Guðrún Brá gaf aðeins eftir á lokahringnum

Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. mbl.is/Kjartan Þorbjörnsson

Guðrún Brá Björgvinsdóttir hefur lokið keppni á úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröð kvenna í golfi sem fram hefur farið á Spáni undanfarna daga. Guðrún lék fimmta og síðasta hringinn sinn í dag.

Guðrún hefur almennt leikið vel á mótinu og var jöfn í 10. sætinu eftir fjórða hringinn í gær, sem hún lék á pari. Hún lék mjög stöðugt golf í dag en fékk þó skolla á fyrstu holu og þeirri síðustu en enga fugla. Hún lauk því hringnum á tveimur höggum yfir pari og lauk því keppni á alls þremur höggum yfir pari.

Fáeinir keppendur eiga eftir að ljúka lokahringnum og er Guðrún sem stendur í 12.-20. sæti. Efstu keppendur eiga allir eftir að klára en Amy Boulden frá Wales er sem stendur efst á átta höggum undir og næst kemur Alison Muirhead frá Skotlandi á sjö höggum undir pari.

Efstu fimm kylfingarnir fá þátttökurétt á Evrópumótaröð kvenna sem kallast 5c. Kylfingar í 6.-20. sæti fá þátttökurétt 8a og þeir sem enda í sætum 21-60 fá þátttökurétt 9b.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert