Titilvörn Rúnars og Sögu hefst í fyrramálið

Saga Traustadóttir og Rúnar Arnórsson með verðlaunagripina eftir að hafa …
Saga Traustadóttir og Rúnar Arnórsson með verðlaunagripina eftir að hafa orðið Íslandsmeistarar í holukeppni 2019. Ljósmynd/GSÍ

Rúnar Arnórsson úr GK og Saga Traustadóttir úr GR eiga Íslandsmeistaratitla að verja þegar Íslandsmótið í holukeppni í golfi hefst á Jaðarsvelli á Akureyri í fyrramálið.

Rúnar er í riðli með Ragnari Má Garðarssyni úr GKG, Ragnari Má Ríkarðssyni úr GM og Andra Má Óskarssyni úr GOS en sigurvegari riðilsins kemst í átta manna úrslitin.

Saga er í riðli með Berglindi Björnsdóttur og Ásdísi Valtýsdóttur úr GR og Árnýju Eik Dagsdóttur úr GKG.

Flestir bestu kylfingar landsins eru með en 32 keppa í átta riðlum í karlaflokki og 27 í sjö riðlum í kvennaflokki. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Axel Bóasson og Haraldur Franklín Magnús eru hver í sínum riðli í karlaflokki og sama er að segja um Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur, Valdísi Þóru Jónsdóttur og Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur í kvennaflokki.

Riðlakeppnin hefst kl. 7.30 í fyrra málið, önnur umferðin hefst efstir hádegið og sú þriðja og síðasta 7.30 á laugardagsmorgun. Þá taka við átta manna úrslit karla og kvenna sem hefjast klukkan 14. Á sunnudagsmorgun eru síðan undanúrslitaleikir fyrir hádegi og úrslitaleikir hefjast klukkan 12.30.

Hér má sjá riðlaskiptingu og leiktíma á mótinu á Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert