Ég er ekki hræddur við að deyja

John Daly mætir ávallt skemmtilega klæddur á golfmót.
John Daly mætir ávallt skemmtilega klæddur á golfmót. AFP

John Daly, einn litríkasti atvinnukylfingur á seinni árum, upplýsti í dag að hann ætti í baráttu við krabbamein og hefði þegar gengist undir uppskurð af þeim sökum.

Daly, sem er 54 ára gamall Bandaríkjamaður, skýrði frá því að meinið væri í þvagblöðrunni og hefði uppgötvast þegar hann hefði verið í meðferð vegna nýrnasteina.

„Ég þarf líklega að fara í annan uppskurð. Sem betur fer fannst þetta snemma en ég veit ekki nógu mikið um svona krabbamein. Það virðist hinsvegar ekki á förum, við verðum að sjá til hvað gerist. Ég segi alltaf að ég hafi lifað stórkostlegu lífi. Sama hvað gerist, ég er ekki hræddur við að deyja. Ég er enn að störfum, lifi lífinu, og get tekist á við þessa áskorun. Ég vil bara að krakkarnir mínir og fjölskyldan séu við góða heilsu,“ sagði Daly við Golf Channel.

Hann vann bandaríska PGA-meistaramótið árið 1991 og Opna mótið á St. Andrews árið 1995 en hefur fyrst og fremst verið vinsæll hjá áhugamönnum um golf vegna óhefðbundinnar framkomu, magnaðra upphafshögga og litríks klæðnaðar. Hann hefur ekki keppt á stórmótum á þessu ári en var síðast með á PGA-móti á síðasta ári og keppti á minniháttar móti vestanhafs í byrjun ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert