Kórónuveiran náði „Hvíta hákarlinum“

Greg Norman.
Greg Norman. AFP

Ástralinn Greg Norman greindi frá því á samfélagsmiðlum að hann hefði smitast af kórónuveirunni og þurft að leggjast inn á sjúkrahús. Líðanin mun þó vera ágæt hjá Norman sem er 65 ára en afar vel á sig kominn. 

Norman fór í skimun á jóladag eftir að einkenni veirunnar gerðu vart við sig og fór á sjúkrahús í gær í meðhöndlun eftir að hafa greinst jákvæður. Norman sagðist á samfélagsmiðlum vera við ágæta heilsu en líðanin fram að þessu væri ekki ósvipuð því og að fá flensu. Hann sagðist vonast eftir því að verða útskrifaður samdægurs.

Norman er einn kunnasti íþróttamaður Ástrala en er í dag búsettur á Flórída. Greg Norman var lengi í efsta sæti heimslistans í golfi á níunda og tíunda áratugnum og sigraði tvívegis á Opna breska meistaramótinu. Fékk hann á sínum tíma viðurnefnið Hvíti hákarlinn. 

Með tímanum eyddi hann æ meiri kröftum í að stýra fyrirtækjum sínum en Norman hefur haslað sér völlum á ýmsum sviðum og notið velgengni í viðskiptum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert