Fengu mikið lof fyrir völlinn

Urriðavöllur.
Urriðavöllur. Ljósmynd/GSÍ

„Undirbúningur er hafinn,“ segir Brynjar Geirsson, framkvæmdastjóri Golfsambandsins, um Evrópumót stúlknalandsliða sem haldið verður að óbreyttu hérlendis 5.-9. júlí á næsta ári. Í miðjum heimsfaraldri eru Íslendingar að taka að sér gestgjafahlutverk á viðamiklu alþjóðlegu golfmóti og því virðist ríkja bjartsýni í hreyfingunni um að betri tímar séu í vændum á næsta ári hvað kórónuveiruna varðar.

Mótið mun fara fram á Urriðavelli hjá Golfklúbbnum Oddi en þar hefur áður verið haldið stórt alþjóðlegt mót. Um er að ræða keppendur sem eru 18 ára eða yngri og er evrópska golfsambandið framkvæmdaaðili mótsins eins og ávallt þegar um Evrópumót er að ræða.

„Oddur hélt Evrópumót kvenna árið 2016 og fengu menn mikið lof fyrir völlinn og framkvæmd mótsins. Við vorum einstaklega heppin með veður þegar mótið fór fram og það skapaðist alger paradís uppi í Urriðaholti,“ bendir Brynjar á og segir að evrópska golfsambandið hafi haft samband við Odd.

„Svona ferli byrjar á því að stjórn GSÍ ákveður að sækja um mótshald hjá EGA [evrópska golfsambandið]. Þeir höfðu samband við Golfklúbbinn Odd og stjórn Odds samþykkti að taka mótið að sér. Þar með er búið að ræsa allar vélar og GSÍ, EGA og Oddur munu vinna náið saman að framkvæmd mótsins,“ segir Brynjar en búist er við keppendum frá rúmlega tuttugu þjóðum.

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert