Sannfærandi sigrar Berglindar og Axels

Berglind Björnsdóttir sigraði í kvennaflokki.
Berglind Björnsdóttir sigraði í kvennaflokki. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Berglind Björnsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur og Axel Bóasson úr Golfklúbbnum Keili sigruðu í kvenna- og karlaflokkum á Leirumótinu í golfi sem lauk á Hólmsvelli í Leiru nú síðdegis og er hluti af stigamótaröð Golfsambands Íslands.

Berglind vann kvennaflokkinn með yfirburðum en hún lék hringina þrjá á 219 höggum, þremur yfir pari vallarins. Saga Traustadóttir úr GR varð önnur á 227 höggum, ellefu yfir pari, og Andrea Ýr Ásmundsdóttir úr Golfklúbbi Akureyrar varð þriðja á 233 höggum, sautján höggum yfir pari.

Axel Bóasson sigraði í karlaflokki.
Axel Bóasson sigraði í karlaflokki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Axel vann karlaflokkinn af miklu öryggi og lék hringina þrjá á 205 höggum, eða ellefu höggum undir pari. Andri Már Óskarsson varð annar á 211 höggum, fimm undir pari, en þrír kylfingar deildu þriðja sætinu á 215 höggum. það voru Fannar Ingi Steingrímsson úr Golfklúbbi Hvaragerðis, Birgir Björn Magnússon úr Keili og Ingi Þór Ólafson úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar.

mbl.is