Tók smá tíma að átta mig á að ég komst svona langt

Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir (t.v.) með verðlaunagripi sína fyrir að lenda …
Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir (t.v.) með verðlaunagripi sína fyrir að lenda í öðru sæti, ásamt Louise Duncan, sigurvegara mótsins. Aðsend

Hin 18 ára gamla Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir, kylfingur úr GR, braut blað í íslenskri golfsögu um helgina þegar hún komst alla leið í úrslit Opna breska áhugamannamótsins, fyrst Íslendinga. Mótið fór fram, í 118. sinn, á Barassie-vellinum í Kilmarnock í Skotlandi dagana 8.-12. júní.

„Mér líður bara ótrúlega vel og það tók alveg smá tíma að átta mig á því að ég hefði í alvörunni náð svona langt en þetta er eiginlega búið að setjast inn núna,“ sagði Jóhanna Lea í samtali við mbl.is.

Jóhanna Lea tapaði í úrslitum fyrir hinni skosku Louise Duncan en til að komast þangað þurfti hún að slá fimm kylfinga út.

Fyrst var höggleikurinn, sem voru tveir hringir, og ég komst eiginlega rétt svo í gegnum niðurskurðinn, ég var í 53. sæti og 64 komust áfram. Svo var það þannig að ég endaði á móti Huldu Clöru [Gestsdóttur] í fyrsta leiknum, sem var algjör tilviljun. Ég vann hana á 18., seinustu holunni.

Daginn eftir lenti ég á móti Hazel MacGarvie, sem er aðalheimamaðurinn í mótinu, og ég spilaði líka með henni í höggleiknum, sem var svolítið fyndið. Ég vann hana á 17. holu. Seinni leikinn á fimmtudeginum spilaði ég á móti Emily Toy, sem vann þetta mót 2019. Sá leikur fór á 18. holu.

Jóhanna Lea ásamt Lúðvík Bergvinssyni föður sínum og Dagbjarti Sigurbrandssyni …
Jóhanna Lea ásamt Lúðvík Bergvinssyni föður sínum og Dagbjarti Sigurbrandssyni kærasta sínum. Aðsend

Svo var Katie Lanigan á föstudeginum og það var líka mjög spennandi, ég vann hana á 17. holu. Næst var það Shannon McWilliam, sem fór í bráðabana. Svo var það bara úrslitaleikurinn,“ sagði hún, en eins og sjá má voru viðureignirnar fimm fram að úrslitaleiknum allar æsispennandi.

Fer í háskóla í Bandaríkjunum í haust

Jóhönnu Leu gekk ekki jafn vel í úrslitaleiknum og kennir lélegu pútti um það. Hún var svekkt með það en þó vitanlega ánægð með að hafa komist þetta langt á mótinu.

„Þetta var bara svo nálægt því að vera tæpari leikur því ég púttaði svo rosalega illa í honum, sem er alveg svekkjandi en ég er samt sátt með mína frammistöðu,“ sagði hún.

Næst á dagskrá hjá Jóhönnu Leu er Íslandsmótið í holukeppni, sem fer fram um næstu helgi á Þorláksvelli í Þorlákshöfn.

Í haust fer hún svo í háskóla í Bandaríkjunum. „Ég er að fara í háskóla næsta haust til Bandaríkjanna. Northern Illinois University heitir hann og ég verð í golfliðinu þar.

Ég ætla að standa mig þar. Svo ætla ég líka að standa mig í sumar á Íslandi,“ sagði kylfingurinn bráðefnilegi að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert