Zalatoris efstur og Tiger seiglaðist áfram

Will Zalatoris hefur leikið best allra á tveimur fyrstu dögunum …
Will Zalatoris hefur leikið best allra á tveimur fyrstu dögunum í Tulsa. AFP/Ross Kinnaird

Will Zalatoris er með forystu eftir  tvo hringi á PGA-meistaramótinu í golfi sem nú stendur yfir í Tulsa í Oklahoma og Tiger Woods tókst að ná flottum hring í dag og komast í gegnum niðurskurðinn.

Texasbúinn Zalatoris lék á 65 höggum í dag og er einn í efsta sætinu á níu höggum undir pari. Mito Pereira  frá Síle er á hælum hans á átta undir pari. Justin Thomas er þriðji á sex undir pari og Bubba Watson fjórði á fimm undir pari.

Tiger Woods var í vandræðum á fyrsta hringnum í gær og haltraði af velli í lok hans, enda að komast aftur af stað eftir alvarlegt bílslys á síðasta ári. En í dag sýndi Tiger gamla takta, lék hringinn á 69 höggum, og það dugði honum til að komast í gegnum niðurskurðinn á samtals þremur höggum yfir pari.

Rory McIlroy frá Norður-Írlandi náði ekki að fylgja alveg eftir góðri byrjun. Hann lék fyrsta hringinn á 65 höggum en annan hringinn í kvöld á 71 höggi. Hann er samtals á fjórum höggum undir pari.

mbl.is