Öruggur sigur Hauka

Valsmaðurinn Fannar Þór Friðgeirsson reynir að brjótast í gegnum vörn ...
Valsmaðurinn Fannar Þór Friðgeirsson reynir að brjótast í gegnum vörn Hauka í leiknum í kvöld. mbl.is

Haukar tóku forystuna í einvíginu við Val um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik með öruggum sigri, 30:24, á Ásvöllum í Hafnarfirði.  Liðin mætast í fjórða sinn á heimavelli Vals á fimmtudagskvöldið kl. 19.30. Með sigri í þá geta Haukar orðið Íslandsmeistarar þriðja árið í röð.

Haukar réðu lögum og lofum í leiknum frá upphafi til enda enda en það var ekki fyrr en eftir um 10 mínútur í síðari hálfleik sem leiðir skildu alveg á milli liðanna. Staðan í hálfleik var 13:11, heimaliðinu í vil.

Leikmenn Hauka léku sinn langbesta leik í einvíginu að þessu sinni. Þeir léku framúrskarandi vörn og sóknarleikur liðsins hefur ekki gengið betur en að þessu sinni, ef horft er til leikjanna þriggja sem að baki eru. Nú sýndu Haukar loks hvers þeir eru megnugir.

Valsmenn náðu aldrei sama dampi í varnarleik sinn og fyrri viðureignunum tveimur. Sóknarleikurinn var dapur  og leið fyrir að fáir leikmenn geta skotið almennilega á markið. Elvar Friðriksson er meiddur og gat ekki beitt sér sem skildi. Fannar Þór Friðgeirsson var í góðri gæslu Hauka allan leikinn og hafði sig fyrir vikið ekki eins mikið í frammi og áður.

Mörk Hauka: Sigurbergur Sveinsson 9/3, Björgvin Þór Hólmgeirsson 5, Elías Már Halldórsson 4, Freyr Brynjarsson 4, Pétur Pálsson 4, Einar Örn Jónsson 1, Gunnar Berg Viktorsson 1, Tjörvi Þorgeirsson 1, Þórður Rafn Guðmundsson 1.
Varin skot: Birkir Ívar Guðmundsson 12 (þaraf 3 til mótherja). Aron Rafn Eðvarðsson 1.
Utan vallar: 14 mínútur.
Mörk Vals: Arnór Þór Gunnarsson 9/5, Sigurður Eggertsson 6, Fannar Þór Friðgeirsson 2, Ingvar Árnason 2, Sigfús Páll Sigfússon 2, Elvar Friðriksson 1, Gunnar Ingi Jóhannsson 1, Orri Freyr Gíslason 1.
Varin skot: Hlynur Mortens 7 (þaraf 2 til mótherja). Ingvar K. Guðmundsson 3/2.
Utan vallar: 10 mínútur.

52. Haukar halda Völsurum í öruggri fjarlægð frá sér. Ekkert nema stórslys getur komið í veg fyrir sigur Hauka að þessu sinni. Þeir eru sex mörkum yfir, 26:20.

44. Leiðir liðanna virðast vera að skilja. Valsmenn taka nú leikhlé, fimm mörkum undir og freista þess að koma lagi á sókn sína. Það er hægara sagt en gert þar sem vörn Hauka er öflug og Valur hefur ekki marga möguleika til sóknar. Elvar Friðriksson er kominn inn á í sóknarleikinn en hann er meiddur og óvíst hversu mikið hann getur hjálpað upp á sakirnar.

40. Haukar hafa lokað vörn sinn og fengið hraðaupphlaup. Fyrir vikið hefur skilið á milli liðanna, staðan er 19:15, Haukum í hag.

35. Valsmenn eru líflegri nú í byrjun síðari hálfleiks en þeir voru í þeim fyrri. Þeir taka nú fast á móti og leika hraðar í sókninni. Allt stefnir því í hörkuleik ef fram heldur sem horfir. Staðan er 16:14, Haukum í hag.

30. mín: Staðan er 13:11 fyrir Hauka að loknum fyrri hálfleik. Sigurður Eggertsson náði að ógna vörn Hauka nokkuð undir lok fyrri hálfleiks. Heilt yfir þá eru Haukar mun sterkari og sóknarleikur Vals er vandræðalegur þegar Hauka spila 6-0 vörn. Sigurbergur Sveinsson Haukum og Arnór Gunnarsson Val eru markahæstir með 5 mörk hvor.

20. Lítið hefur breyst í leiknum. Leikmenn Hauka eru beittari og einbeittari. Greinilegt er að meistararnir eru loksins mættir til leiks. Arnór Þór Gunnarsson hefur skorað fimm af sex mörkum Vals sem eiga í miklum erfiðleikum í sóknarleiknum.

15. Haukar eru sem fyrr mun sterkari. Þeir eru þremur mörkum yfir, 7:4, og eru í sókn, reyndar manni færri eftir að Guðmundur Árni Ólafsson var rekinn af leikvelli.

10. Freyr Brynjarsson var að koma Haukum yfir, 4:3, með marki eftir hraðaupphlaup. Haukar hafa verið klaufar í síðustu sóknum og fyrir vikið leyft Valsmönnum að vera með í leiknum, en Valsliðið hefur ekki verið að bjóða upp á neitt spennandi til þessa. Arnór Þór Gunanrsson hefur skorað öll mörk Vals úr vítaköstum.

5. Haukar virðast ferskari í upphafi leiks í kvöld en í tveimur fyrstu leikjunum. Vörnin hreyfanleg og ákveðin. Valsmenn eiga í erfiðleikur með að koma skotum á markið.  Staðan er 2:1 og Haukar voru að hefja sókn.

Leikmenn hita upp en tíu mínútur er þangað til flautað verður til leiks. Fín stemning er á Ásvöllum og nokkuð ljóst að áhorfendur verða ekki færri en þeir voru á fyrsta leik liðanna sem fram fór hér á föstudaginn. Þá mættu nærri 1.500 manns.

Dómarar leiksins í kvöld  verða Hafsteinn Ingibergsson og Gísli H. Jóhannsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina