Ólafur Bjarki í Emsdetten

Ólafur Bjarki Ragnarsson í leik með HK.
Ólafur Bjarki Ragnarsson í leik með HK. Ómar Óskarsson

Ólafur Bjarki Ragnarsson, landsliðsmaður í handknattleik og besti leikmaður N1-deildar karla, hefur samið við þýska 2. deildar liðið Emsdetten um að leika með liðinu á næsta keppnistímabili. Ólafur var í lykilhlutverki þegar HK vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í vor og fékk í framhaldinu margvísleg verðlaun á lokahófi HSÍ. Ólafur sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að þetta væri ágætur tímapunktur til að fara utan á ný en hann lék með ASG Ahlen í þýsku 2. deildinni 2009-2010.

„Ég myndi segja það enda var það draumur að ná að ljúka tímabilinu með titli. Það er flott að fara aftur út núna og taka næsta skref. Ég veit hvað ég er að fara út í og 2. deildin er sterkari en fyrir tveimur árum. Emsdetten hefur verið í baráttunni um að fara upp síðustu tvö árin og vonandi tekst okkur að fara upp á næsta tímabili. Það skemmir heldur ekki fyrir að það verður annar Íslendingur í liðinu á næsta tímabili,“ sagði Ólafur og á þar við Erni Hrafn Arnarson sem lék síðari hluta tímabilsins í vetur með Emsdetten.

Nánar er rætt við Ólaf Bjarka í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.