Ánægjulegt að koma hingað og sigra

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH.
Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það skiptir FH auðvitað meira máli en fyrir önnur lið að vinna hér en tvö stig eru bara tvö stig, þau telja jafnmikið hérna. En það er virkilega ánægjulegt að koma hingað, ná góðum sigri og klára þetta vel,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, eftir 27:23 sigur gegn erkifjendunum í Haukum í 3. umferð Olísdeildar karla í handknattleik á Ásvöllum í kvöld.

„Við náðum að spila góða vörn í seinni og Birkir kemur með mikilvæga bolta, er að taka það sem vörnin er ekki að stoppa og meira að segja dauðafæri. Svo var sóknarleikurinn klókur og við gerum fá mistök sem er gríðarlega mikilvægt í svona leik, það hjálpaði til í dag.“

Ágúst Birgisson stóð á milli stanganna hjá FH í fyrri hálfleik en eftir hlé tók Birkir Fannar Bragason við og var hann mjög sterkur en Halldór fannst þurfa að breyta aðeins til.

„Okkur fannst bara varnarleikurinn ekki vera góður og Ágúst var að fá erfið dauðafæri á sig. Við vildum sjá hvort það myndi kvikna eitthvað líf ef við breyttum. Birkir er góður markvörður, við erum með tvo frábæra slíka og við treystum þeim báðum og Birkir skilaði þessu frábærlega í dag. Ágúst var ekki lélegur í dag, en það var ákveðin taktík að kveikja aðeins í mönnum og það kemur mikið líf með Birki, hann er tilfinningaríkur maður.“

Markaskorun FH dreifðist nokkuð jafnt á marga leikmenn í kvöld og er Halldór ánægður með breiddina í liðinu.

„Ég er ánægður með breiddina inn á vellinum, við erum með marga mjög unga leikmenn fyrir utan liðið sem koma inn á meðan Gísli og Jói eru meiddir. Það er kannski svolítið ósanngjarnt að setja Einar Örn, 16 ára, inn á í stöðunni einum færri og lítið eftir. Þetta er bara sú staða sem við erum í og hann hefur staðið sig frábærlega. Ég er ánægður með liðið í heild sinni.“

Björgvin Páll Gústavsson hefur reynst andstæðingum sínum erfiður viðureignar undanfarið en FH-ingar fundu leiðir fram hjá honum í dag, sérstaklega í seinni hálfleik og benti Halldór á að landsliðsmarkvörðurinn er ekki ósigrandi þótt hann sé góður.

„Björgvin Páll er frábær markvörður og hefur verið landsliðsmarkvörður í mörg, mörg ár. Það er frábært að fá hann í deildina en hann er ekki ósigrandi og ég bað menn um að gefa sér tíma á hann, leyfa honum að eiga fyrstu hreyfingu áður en menn færu að lúðra á hann. Hann var mjög góður í fyrri hálfleik og varði mikið en datt aðeins niður í þeim seinni eins og varnarleikur þeirra gerði síðustu 15 mínúturnar.“

FH-ingar eru nú með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjár umferðirnar, líkt og Íslandsmeistarar Vals, og er Halldór sáttur með byrjunina.

„Við erum búnir að spila mjög jafnt núna marga leiki í röð og ég er ánægður með byrjunina. En þetta skilar okkur bara sex stigum og það eru margir leikir eftir af mótinu, við tökum bara einn í einu,“ sagði Halldór að endingu.

mbl.is