Ósætti vegna fjarveru Erlings með landsliðinu

Erlingur Richardsson.
Erlingur Richardsson. mbl.is/Eva Björk

Klofningur virðist vera kominn upp í Vestmannaeyjum hvað varðar Erling Richardsson, skólastjóra grunnskóla Vestmannaeyjarbæjar, vegna þess að hann sinnir einnig starfi landsliðsþjálfara Hollands í handknattleik.

Erlingur tók við hollenska landsliðinu í október og í samtali við mbl.is sagðist Erlingur sérstaklega þakk­lát­ur Vest­manna­eyja­bæ sem gerði hon­um kleift að taka starfstil­boði hol­lenska sam­bands­ins. Kennarar virðast hins vegar ekki vera sáttir við fyrirkomulagið.

„Aðalfundur Kennarafélags Vestmannaeyja lýsir yfir áhyggjum af því álagi sem skapast vegna fjarveru skólastjóra í þau skipti sem hann sinnir starfi sínu sem þjálfari landsliðs Holllands í handbolta.” segir í ályktun Kennarafélags Vestmannaeyja og eyjar.net greina frá.

„Undanfarið misseri hafa stjórnendur verið undir gífurlegu álagi sem hefur haft áhrif á skólastarf almennt. Félagsmenn óska Erlingi Richardssyni velfarnaðar í nýju starfi og skilja hans sjónarmið enda óvissa með framhald á stafi hans við GRV,“ segir einnig Í ályktuninni sem send var bæjaryfirvöldum í síðasta mánuði, en félagsmenn vilja að staðgengill sinni starfi skólastjóra á meðan Erlingur er í burtu.

„Ekki óalgengt að skólastjórnendur séu frá vinnu“

Þegar málið var tekið fyrir í bæjarráði Vestmannaeyja lá einnig fyrir minnisblað frá Jóni Péturssyni, framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs um málið. Hann er ekki á sama máli og Kennarafélagið og segir að ekkert bendi til þess að óeðlilegt álag skapist við fjarveru Erlings.

Þar segir að Erlingur hafi óskað eftir launalausu leyfi í fimm daga í október, níu daga í janúar og viku í júní, þegar almennu skólastarfi er lokið. Skólastjórar hafi ekki talið þörf á staðgengli, „enda ekki óalgengt að skólastjórnendur séu frá vinnu vegna veikinda, orlofa eða vinnuferða,“ segir í minnisblaðinu.

„Til upplýsingar má benda á að fjarvera skólastjórnenda á haustönninni 2016 (frá 15. ágúst til áramóta) var 24 dagar vegna orlofa og veikinda. Ekki er fjarvera vegna vinnuferða tekið með. Af þessum 24 dögum  var skólastjóri GRV frá í 6 daga vegna veikinda og orlofs. Að auki var skólastjóri frá í 11 daga samfellt vegna vinnuferðar. Samtals frá á haustönninni 17 daga. Ekki var tekinn inn staðgengill vegna þess,“ segir í minnisblaðinu.

„Eftir að hafa skoðað málið bæði fyrir og eftir ábendingar KV getur undirritaður ekki tekið undir áhyggjur aðalfundar. Ekkert bendir til þess að óeðlilegt álag skapist við fjarveru skólastjóra. Fjarvera skólastjóra er á engan hátt meiri en verið hefur og jafnvel minni,“ segir í minnisblaði Jóns.

Nánar má lesa um málið á eyjar.net.

mbl.is