Pössum að þetta gerist aldrei aftur

Bjarni Fritzson var ekki sáttur í leikslok.
Bjarni Fritzson var ekki sáttur í leikslok. mbl.is/Hari

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, var ómyrkur í máli eftir 37:25-stórtap gegn Selfossi í 17. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld.

„Það var enginn sem gat neitt í okkar liði í dag, við skulum bara segja það eins og það er. Stundum eru menn bara lélegir en við megum samt ekki líta léttvægt á þetta, þetta er viðvörun fyrir okkur. Nú þurfum við að stíga upp og passa að þetta gerist aldrei aftur.

„Strax í byrjun erum við að klúðra dauðafærum, tapa boltanum og missa mann út af. Í rauninni erum við að senda þau skilaboð að við vorum ekki klárir í leikinn, hvorki í byrjun né í endann. Byrjunin var léleg af því að við vorum lélegir.“

Selfyssingar komu nokkuð á óvart með því breyta varnarskipulaginu sínu frá síðustu leikjum en Bjarni segir það ekki hafa haft marktæk áhrif.

„Nei við vorum búnir að fara yfir þann möguleika að þeir gætu spilað allar tegundir af vörnum í dag. Ég á eftir að fara yfir það betur en mér fannst við ekki vera í vandræðum með það, þannig séð. Hann [Sölvi Ólafsson, markmaður Selfoss] ver afskaplega vel í markinu og svo erum við að gera þetta illa en sóknarleikurinn var kannski ekki aðalatriðið í dag. Varnarleikurinn var hræðilegur, sérstaklega í fyrri hálfleik.“

„Í seinni hálfleik fórum við í 5-1 vörn og ég var þokkalega ánægður á köflum þá. Við höfum ekkert verið að æfa þá vörn neitt sérstaklega en ef ég tek eitthvað jákvætt úr þessu, þá er það að þetta gefur okkur kannski nýtt vopn.“

Bjarni sá eftir þeim fjölda dauðafæra sem hans menn nýttu ekki í leiknum en hrósaði líka Sölva Ólafssyni í marki Selfyssinga.

„Við fengum fullt af tækifærum til að koma okkur aftur inn í þennan leik en erum að klikka á dauðafærum ítrekað. Hann átti leik lífs síns í markinu, það er bara þannig.“

ÍR-ingar eru í nokkuð vænlegri stöðu í deildinni, þrátt fyrir tapið. Liðið hefur 15 stig og er sjö stigum frá því að detta úr úrslitakeppnissæti en Bjarni segir ekkert öruggt í þessari deild. Sömuleiðis telur hann það ekki skipta öllu máli hvaða liði hans menn mæta, fari þeir í úrslitakeppnina, sökum þess hve sterk liðin eru á toppnum.

„Ég sé það ekki skipta neinu máli, þetta er FH, ÍBV, Selfoss og Valur. Þetta eru allt geggjuð lið og það sem skiptir meira máli er að við séum í standi og að spila góðan bolta. Það er ekkert fast í hendi og sæti í úrslitakeppninni er ekki klárt fyrr en það er klárt. Miðað við okkar leik hérna í dag þá er það bara alls ekki klárt.“

mbl.is