Sérstakt að Bjarki fái brottvísun yfir höfuð

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar.
Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst við góðir í sókninni í dag og Lalli varði góða bolta um miðjan seinni hálfleik og þá náum við smá forskoti. Við vorum alltaf að spila okkur í góð færi," sagði Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar eftir 31:28-sigur á Fjölni í Olísdeild karla í handbolta í kvöld.

„Ég var alltaf vongóður því sóknin var góð og ef við fengjum markvörslu og vörnin myndi þéttast aðeins voru góðar líkur á að við myndum taka þetta."

Lárus Gunnarsson byrjaði í markinu hjá Stjörnunni en var tekinn út af í hálfleik. Hann kom svo aftur inn og var mikilvægur.

„Við erum að vinna með ákveðið upplegg og þetta er partur af því. Það gafst vel í síðasta leik að skipta. Nú kom Lalli aftur inn. Við erum að spila á mörgum mönnum og það þurfa allir að leggja í púkkið og þannig hefur það verið í síðustu tveimur leikjum."

Einar segir stemninguna í hópnum betri núna eftir tvo sigurleiki í röð.

„Já, en það var þannig fyrir þessa leiki. Við erum búnir að vera duglegir og vinna í okkar málum. Strákarnir eiga hrós skilið fyrir sín framlög. Ég er stoltur og ánægður með þá. Við þurfum hins vegar að halda okkur á jörðinni, það er ljóst. Það er mikil vinna fram undan. Vonandi átta menn sig á því hvað þetta er mikið skemmtilegra svona."

Bjarki Már Gunnarsson fékk þrjár brottvísanir í kvöld. Einar lét dómara leiksins heyra það eftir að sú þriðja leit dagsins ljós.

„Mér fannst síðasta algjört rugl, en ég sá hinar ekki nógu vel. Mér finnst mjög sérstakt að Bjarki Már fái brottvísun yfir höfuð í leikjum og hvað þá þrisvar. Kannski var hann bara hátt gíraður. Ég var sjálfur hátt gíraður eins og margir leikmenn. Það var örugglega erfitt að dæma þetta," sagði Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert