Líður alveg eins og Kára í körfunni

Agnar Smári Jónsson var hetja Eyjamanna.
Agnar Smári Jónsson var hetja Eyjamanna. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Mér líður alveg eins og Kára í körfunni núna," sagði Agnar Smári Jónsson og skellihló er mbl.is spjallaði við hetju Eyjamanna í kvöld. ÍBV vann 34:33-sigur á Fram í lokaumferð Olísdeildar karla í handbolta í kvöld og skoraði Agnar sigurmarkið, sex sekúndum fyrir leikslok.

„Þetta er æðislegt og gott veganesti í úrslitakeppnina. Við erum búnir að tryggja okkur heimaleikjaréttinn út úrslitakeppnina og við ætlum okkur að nýta hann. Þetta var erfitt í 52 mínútur hjá okkur, en það var þess virði til að vinna þetta svona, þó þetta hafi verið ógeðslegt."

Fram var fjórum mörkum yfir, skömmu fyrir leikslok en með góðum lokakafla, tókst ÍBV að sigla fram úr.

„Við gerðum okkur allt of erfitt fyrir, en ég vil hrósa Frömurum. Þeir spiluðu allt öðruvísi bolta en við bjuggumst við. Þeir voru agaðri og spiluðu kerfi sem við vorum ekki búnir að skoða. Þeir spiluðu þetta mjög vel. Vörnin okkar var ekki frábær, en það þarf að hrósa Frömurum fyrir frábæran leik. Þetta er svekkjandi fyrir þá að hafa tapað þessu svona."

„Þetta var eins og annar bikarleikur, það var bikar undir hjá okkur og þeir ætluðu að skemma það fyrir okkur og það tókst næstum því. Sigurhefðin kom okkur í gegnum þetta."

Næst á dagskrá er útileikur gegn Krasnodar í Áskorendakeppni Evrópu. Eyjamenn fá lítinn tíma til að fagna, því þeirra bíður flug til Helsinki snemma í fyrramálið.

„Við jöfnum okkur í Helsinki á morgun og ætlum í sánu og íssund, svo förum við til Moskvu á föstudaginn og Krasnodar þar strax á eftir með rússnesku innanlandsflugi, það verður ábyggilega geggjað," sagði hæstánægður Agnar Smári Jónsson í leikslok. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert