Spilaði mánuði eftir að hnéskelin fór úr lið

Ólafur Gústafsson í landsleik gegn Túnis.
Ólafur Gústafsson í landsleik gegn Túnis. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég las einhvers staðar að fimm ár séu liðin frá mínum síðasta landsleik,“ sagði Ólafur Gústafsson þegar mbl.is spjallaði við hann um endurkomu hans í landsliðið í handknattleik sem mætir Litháen í dag. 

Ólafur var kominn inn í landsliðið hjá Aroni Kristjánssyni á sínum tíma en hefur á sínum ferli fengið sinn skammt (og jafnvel annarra) af erfiðum meiðslum.

„Já ég hef saknað þess að vera í landsliðinu en þessi tími hefur verið litaður að meiðslum og hugsunin hefur því ekki endilega verið á landsliðinu heldur að ná mér. Í einhverjum tilfellum var ég ekki valinn og þá hefði maður viljað vera með. Það kveikir í mér að fá kallið núna og gaman að sjá að Gummi (landsliðsþjálfari) hefur trú á manni. Nú verður maður bara að svara því trausti eins og maður best getur,“ sagði Ólafur sem sér nú fram á að geta náð undirbúningstímabilinu í sumar á fullum krafti ef ekkert kemur upp á. 

Ólafur hóf keppnistímabilið með Stjörnunni en var þá keyptur til Danmerkur og lék með Kolding. „Tímabilið var að mestu leyti mjög gott fyrir mig. Liðið var með fámennan leikmannahóp sem gerði það að verkum að ég fór beint inn í liðið hjá Kolding. Mér gekk mjög vel bæði í vörn og sókn. En ég lenti í því fyrir tveimur mánuðum að lenda illa í leik og hnéskelin fór úr lið en einnig bein í sköflungnum. Danirnir óttuðust fyrst að meiðslin væru enn verri en þegar uppi var staðið tók mig ekki nema mánuð að ná mér. Þetta leit vissulega illa út en ég var glaður yfir því að hnéskelin fór „bara“ úr lið. Okkur gekk mjög vel undir lok tímabilsins og náðum sjö stigum í þessum milliriðlum sem eru í úrslitakeppninni í Danmörku. Tímabilið hjá Kolding var því nokkuð gott á heildina litið,“ sagði Ólafur Gústafsson við mbl.is. 

Ísland mætir Litháen í Vilnius í undankeppni HM í dag klukkan 16 að íslenskum tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert