Fá ekki allir gamlir menn í bakið?

Heimir Örn Árnason.
Heimir Örn Árnason. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Heimir Örn Árnason, annar þjálfara KA í handbolta, átti ævintýralegt kvöld þegar lið hans vann Akureyri í miklum taugatrylli í KA-heimilinu.

Hann hálfrotaðist og fékk slæman skell í fyrri hálfleik og var studdur vankaður af velli. Síðan þurfti hann að fylgjast með af hliðarlínunni án þess að geta beitt sér. Þá virtust Akureyringar ætla að taka öll stigin eftir að hafa unnið upp sex marka forskot KA og gott betur. KA skoraði tvö síðustu mörkin og fagnaði 28:27 sigri, þjálfaranum til mikils léttis.

Hvernig var að fylgjast með góðu forskoti þinna manna hverfa sem dögg fyrir sólu á lokakaflanum?

„Það var bara hræðilegt og tilfinningin var ömurleg. Mér fannst við alveg með þá í fyrri hálfleik. Við vorum flottir varnarlega og ekki í neinum stórvandræðum. Þeir komu svo með gott áhlaup í seinni hálfleik og það var bara vel gert hjá þeim, ég get ekki neitað því. Þeir eru með flottan markmann sem er með geggjaðar sendingar en við vorum líka bara klaufar. Við létum reka okkur út af, alveg hægri vinstri og það var allt saman rétt. Við verðum bara að læra af þessu.“

Þið virtust ætla að klúðra þessu en komuð til baka á hárréttum tíma í blálokin.

„Já, ég var kominn með hnút í magann. Þetta leit ekki vel út. Það er karakter í liðinu og karakter í húsinu og það eina sem skiptir máli er að við náðum þessum tveimur stigum.“

Þú fékkst slæma byltu í leiknum og varst nánast borinn af velli.

„Það var pínu neyðarlegt þegar þeir komu með sjúkrabörurnar. Ég var nú að reyna að reka þá út af með þessar börur. Ég datt út í nokkrar sekúndur en fékk skurð á ennið og slæman verk í bakið. Fá ekki allir gamlir menn í bakið? Þetta jafnar sig. Svona er bara þessi handbolti. Menn meiða sig og hann Leo kom og baðst afsökunar. Hann er greinilega flottur karakter og það var ekkert illt í þessu. Í heild er ég mjög ánægður með dómgæsluna, líka með húsið og mótherjana. Þetta var flottur leikur og flott umgjörð.“

Horfir þú eitthvað öðruvísi á dómgæsluna núna eftir að hafa verið að dæma síðustu ár?

„Já, já, ég geri það að sjálfsögðu. Þetta byrjar vel. Ég horfði á leik í gær og svo núna. Dómararnir byrja mjög vel. Ég passa mig og tuða miklu minna en áður,“ sagði hinn háaldraði Heimir Örn, sem á líklega Íslandsmet í að koma aftur til leiks í handboltann eftir að hafa lagt skóna á hilluna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert