Sex marka sigur Vals gegn nýliðunum

Gerður Arinbjarnar í liði Vals fer framhjá Þórunni Elvu Sigurbjörnsdóttur …
Gerður Arinbjarnar í liði Vals fer framhjá Þórunni Elvu Sigurbjörnsdóttur í leiknum í dag. Ásdís Guðmundsdóttir, liðsfélagi Þórunnar hjá KA/Þór, fylgist með. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

KA/Þór reið ekki feitum hesti frá fyrstu viðureign sinni í Olís-deild kvenna í handbolta í dag. Valskonur voru mættar norður og þær hreinlega gengu yfir Akureyringa á fyrstu mínútum leiksins og unnu að lokum sex marka sigur, 25:19.

 Á tæpu kortéri var staðan orðin 9:1 fyrir Val og áttu heimakonur engin svör við grimmum varnarleik og góðri markvörslu Valsara. Eftir þennan svakalega upphafskafla jafnaðist leikurinn og liðin skiptust á að skora. Martha Hermannsdóttir var allt í öllu í liði KA/Þórs en hún skoraði sex af ellefu mörkum liðs síns í fyrri hálfleik en í hálfleik var staðan 18:11 fyrir Val.

Valskonur áttu í mesta basli allan síðari hálfleikinn og þeim gekk ekkert að skora gegn grimmum heimakonum. Flest mörk Vals komu eftir hraðaupphlaup. KA/Þór var þó ekkert á þeim buxunum að láta rassskella sig og þær unnu seinni hálfleikinn 8:7.

Valur vann samt sem áður öruggan sigur sem var aldrei í hættu. Lokatölur 25:19 í leik sem framan af virtist ætla að verða algjört burst.

Valur er með svakalega sterkt lið í vetur og hæðin í liðinu er óhugnaleg fyrir önnur lið. Íris Björk Símonardóttir er komin í markið og varði hún heilt yfir vel í leiknum. Þó verður að taka fram að mörg skotin sem hún tók voru ekki beint til útflutnings.

Hinum megin var það Olgica Andrijasevic sem stóð vaktina og hún þurfti að fást við mun erfiðari skot. Gömlu kempurnar, þær Martha og Katrín Vilhjálmsdóttir, voru langbestar hjá Þór/KA en sumar af þeim yngri virtust ekki hafa nokkra trú á að þær gætu sett mark í leiknum.

KA/Þór 19:25 Valur opna loka
60. mín. Olgica Andrijasevic (KA/Þór) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert