FH-ingar fara vel af stað

Arnar Freyr Ársælsson, Þorgrímur Smári Ólafsson og Ágúst Birgisson í …
Arnar Freyr Ársælsson, Þorgrímur Smári Ólafsson og Ágúst Birgisson í baráttunni í Kaplakrika í gærkvöld. mbl.is/Árni Sæberg

FH-ingar fara vel af stað á Íslandsmótinu í handknattleik. Liðið hefur fengið þrjú stig í tveimur fyrstu leikjum sínum eftir öruggan sigur á lánlausum leikmönnum Fram, 29:27, í Kaplakrika í gærkvöldi.

Sigurinn var öruggari en lokatölurnar gefa til kynna vegna þess að nær allan síðari hálfleikinn var forskot FH-liðsins fjögur til sex mörk og Framliðið aldrei líklegt til þess að snúa taflinu við. Hafnfirðingar voru þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:13.

Þetta var þriðji leikur FH-inga á átta dögum en þeir mættu Dubrava í Evrópukeppninni á laugardaginn fyrir rúmri viku og Haukum í fyrstu umferð Olís-deildarinnar á síðasta miðvikudag. Liðið hefur því náð að spila sig vel saman en fær nú viku hlé frá leikjum sem Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari sagði eftir sigurinn í gærkvöldi vera kærkominn.

FH-liðið gekk í gegnum miklar breytingar fyrir keppnistímabilið þegar það sá á bak fjórum sterkum leikmönnum. Reyndar bættust aðrir í hópinn. Breytingar hafa tekist vel hjá Halldóri og lærisveinum sem hafa leikið betur fram til þessa en margir áttu von á.

Framarar fór oft illa að ráði sínu í leiknum við FH í gær. Sóknarleikurinn var slakur. Alltof mikið var um ótímabær og jafnvel slök skot í átt að marki FH. Þess utan fóru alltof margar sendingar manna á milli í súginn. Talsverður haustbragur var þess vegna á liði Fram í gær.

FH-ingar nýttu sé vel þá galla sem voru á sóknarleik Framara með hraðaupphlaupum og mörgum svokölluðum auðveldum mörkum. Þannig byggðu FH-ingar upp forskot sitt.

Sjá allt um leikina í Olís-deild karla í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert