Alfreð vill skotklukku – „Fólk hættir að mæta“

Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. Ljósmynd/THW Kiel

Alfreð Gíslason, þjálfari þýska liðsins Kiel, var hundóánægður með það hvers lags handbolta leikmenn Erlangen spiluðu í leik liðanna á sunnudag, sem Kiel vann 27:21.

Alfreð er á því að nýleg regla um leiktafir frá árinu 2016, þar sem sóknarliðið fær að nota að hámarki sex sendingar eftir að viðvörun hefur verið gefin, virki ekki sem skyldi. Þetta mátti sjá í leiknum í fyrradag þar sem leikmenn Erlangen tóku sér langan tíma í sóknirnar, fengu aukaköst og reyndu að tefja leikinn. Stuðningsmenn Kiel blístruðu og bauluðu á áhorfendapöllunum.

„Þetta var ekki handbolti. Þó að merki um leiktöf væri komið upp og Erlangen ætti aðeins sex sendingar eftir þá gat sóknin stundum tekið tvær mínútur með ítrekuðum aukaköstum. Það þarf að bregðast við þessu,“ sagði Alfreð við Kieler Nachtrichten. Patrick Wiencek tók undir með þjálfara sínum.

„Það var eins og Erlangen væri í sókn í 40-50 mínútur af leiknum. Þá verður þetta ekkert eðlilegur handboltaleikur. Það tók liðið 45 sekúndur að byrja sóknir, það var allt gert til að tefja. En allt sem dómarinn leyfir er í lagi,“ sagði Wiencek.

Alfreð vill að notast verði við skotklukku líkt og þekkist í körfubolta, og var einnig prófað í rússneska handboltanum. „Annars hættir fólk að mæta í hallirnar,“ sagði Alfreð, en raunar er þetta ekki í fyrsta sinn sem hann kallar eftir þessari breytingu.

„Erlangen gerði bara það sem liðið þurfti að gera. Þessi leikur sýndi að við þurfum sárlega á skotklukku að halda í handbolta. Í Rússlandi voru gefnar 35 sekúndur í hverja sókn. Ef að við þurfum að verjast þrjár mínútur samfleytt þá er það ekki handbolti. Þegar við vorum upp á okkar besta um 2010 þá áttum við 60-65 sóknir í hverjum leik en núna eru þær 40-45. Það hefur hægt mjög mikið á leiknum,“ sagði Alfreð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert