Selfyssingar mæta pólsku liði

Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfyssinga.
Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfyssinga. mbl.is/Hari

Selfoss mætir KS Azoty-Pulawy frá Póllandi í 3. umferð EHF-bikars karla í handknattleik en dregið var í dag. 

Liðið sem sigrar í rimmunni kemst áfram í riðlakeppni EHF-bikarsins en ýmis sterk lið eru í keppninni og má þar nefna Kiel undir stjórn Alfreðs Gíslasonar sem mun leika gegn hinu kunna norska liði Drammen í næstu umferð en með norska liðinu leikur Óskar Ólafsson. Í fyrsta skipti í fjórtán ár er Kiel ekki í Meistaradeildinni.

Íslendingaslagur verður þegar Füsche Berlin og Álaborg eigast við. Bjarki Már Elísson leikur með Berlínarliðinu sem er ríkjandi meistari í keppninni. Hjá Álaborg eru Janus Daði Smárason og Ómari Ingi Magnússon auk þess sem Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari. 

Óðinn Þór Ríkharðsson mætir Vojvodina frá Serbíu með liði sínu GOG frá Danmörku. 

Fyrri leikirnir verða 17. eða 18. nóvember og hinir síðari fara fram viku síðar. Riðlakeppnin hefst hins vegar ekki fyrr en í febrúar. 

Bjarki Már Elísson og Janus Daði Smárason mætast í EHF-bikarnum.
Bjarki Már Elísson og Janus Daði Smárason mætast í EHF-bikarnum.
mbl.is