Fjórtán marka sigur Vals

Lovísa Thompson og stöllur í Val unnu sjö marka sigur ...
Lovísa Thompson og stöllur í Val unnu sjö marka sigur á Haukum í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur endurheimti efsta sæti Olís-deildar kvenna með stórsigri á Haukum, 30:16, í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í dag í 10. umferð deildarinnar. Leikurinn var einstefna af hálfu Vals frá upphafi til enda. Liðið hefur nú 15 stig í efsta sæti eins og ÍBV. Haukar eru í fjórða sæti með 12 stig en liðið hafði unnið fimm leiki í röð þar til kom að leiknum í dag.

Valur tók völdin í leiknum strax í upphafi með frábærum varnarleik sem lið Hauka átti fá svör við. Staðan var orðin, 6:1, eftir aðeins tíu mínútur og 8:3, þegar hálfleikurinn var hálfnaður. Ekki stóð steinn yfir steini í sóknarleik Hauka gegn Valsvörninni þar sem Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, Gerður Arinbjarnar og Díana Dögg Magnúsdóttir voru í aðalhlutverkum. Segja má að um einstefnu hafi verið verið að ræða í fyrri hálfleik og að honum loknum var átta marka munur, Val í vil, 15:7.

Ekkert vænkaðist hagur Hauka í upphafi síðari hálfleik. Valsliðið hélt áfram heljargreipum sínum um leikinn og var komið með níu marka forskot, 21:12, þegar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum.

Segja má að yfirburðir Vals hafi verið slíkir frá upphafi að aldrei hafi verið vafi hvort liðið færi með sigur úr býtum. Eftir fimm sigurleiki í röð þá fengu Hauka skell að þessu sinni. Síðasta tap liðsins var einnig fyrir Val í leik þar sem Valur réði ferðinni frá upphafi.

Maria Ines var markhæst í slöku liði Hauka með sex mörk. Berta Rut Harðardóttir var næst með fjögur mörk.

Lovísa Thompson var markahæst hjá Val með sjö mörk. Díana Dögg Magnúsdóttir og Sandra Erlingsdóttir, báðar úr Vestmannaeyjum, voru næstar með sex mörk hvor.

Haukar 16:30 Valur opna loka
60. mín. Leik lokið - Valur vinnur stórsigur eftir að hafa leikið afar vel að þessu sinni. Haukaliðinu féll allur ketill í eld frá upphafi. Valur hefur þar með endurheimt efsta sæti deildarinnar.
mbl.is